Varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:00:15 (2838)

2000-12-06 15:00:15# 126. lþ. 42.3 fundur 280. mál: #A varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hlýt við þetta tækifæri að láta í ljós ánægju mína yfir því hvaða þróun kísilgúrmálin hafa tekið í Mývatnssveit um leið og ég læt í ljós sérstaka undrun yfir ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. áðan sem varðaði ekki beint málið. Þótti mér þó undarlegt þar sem honum er yfirleitt mikið niðri fyrir þegar hann ræðir um það að leggja niður kísilgúrvinnslu í Mývatnssveit. En hér er auðvitað um það að ræða að þessi byggð stendur og fellur með því að það fólk sem þar býr hafi atvinnu. Og þegar við erum að tala um byggð úti á landi, byggðastefnu og náttúruvernd, þá erum við auðvitað að tala um hvernig við Íslendingar getum lifað í friði og sátt við land okkar og að það fólk sem þar búi eigi rétt til lífs á þeim stað þar sem það er fætt og uppalið ef náttúran gefur kosti til þess að þar sé hægt að búa án þess að níðast á náttúrunni. Kísilgúrvinnsla við Mývatnssveit er náttúruvæn, vatnið endurnýjar kísilgúrinn og við vitum að ef ekki hefði komið til kísilgúrvinnslu, þá væru vissir hlutar vatnsins nú upp úr sem nú er vatn og þar sem nú syndir silungur, góður til átu.