Manneldis- og neyslustefna

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:08:47 (2843)

2000-12-06 15:08:47# 126. lþ. 42.4 fundur 279. mál: #A manneldis- og neyslustefna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrrh., sem ég flyt ásamt hv. þm. Þuríði Backman, er svohljóðandi og er hún í tveimur liðum:

,,1. Hvað líður endurskoðun manneldis- og neyslustefnu sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 1989?

2. Hvernig hefur gengið að ná markmiðum manneldis- og neyslustefnunnar?``

Það ber kannski að hafa þann formála, herra forseti, að þegar við sömdum þessa fyrirspurn vorum við með aðra fyrirspurn sem fjallaði um heilbrigðisáætlun ríkisstjórnarinnar. En í þann mund er við vorum að leggja þessar tvær fyrirspurnir fram hér í þinginu birtist á borðum okkar mikil bók sem hefur að geyma heilbrigðisáætlun ríkisstjórnarinnar og fagna ég því að hún skuli komin út. Er það veigamikið rit sem sjálfsagt á eftir að nýtast okkur til a.m.k. næstu tíu ára og þar kennir ýmissa grasa og auðvitað skarast sú áætlun við manneldis- og neyslustefnu að einhverju leyti. En þar sem við höfum nú þál. frá 19. maí 1989, um manneldis- og neyslustefnu, þykir mér eðlilegt að þessari fyrirspurn sé haldið til streitu því hún byggir fyrst og fremst á manneldismarkmiðum. Í henni eru settar fram þrettán aðgerðir sem beita á til að ná markmiðunum og það átti að gerast á árunum 1990--2000 og heilbrrn. átti að sjá um framkvæmdina.

Samkvæmt þeirri manneldisstefnu og neyslustefnu átti heilbrrh. líka að gera þinginu grein fyrir stöðu málsins ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Ég er nú ekki það kunnug að ég viti hvort það var gert, en alla vega ekki síðan ég settist á þing, herra forseti. En mér segir svo hugur að stefnunni hafi ekki verið fylgt út í æsar. Mér dettur í hug að nefna ákvörðun um virðisaukaskatt á matvæli. Mér dettur í hug að það sé oft hægt að sleppa virðisaukaskatti eða lækka virðisaukaskatt á hollari vörur til að hvetja til neyslu þeirra. Ég nefni sem dæmi að fyrir nokkrum árum hækkaði undanrenna mikið í verði og var talið að verð á henni ætti að fara eftir markaðslögmálunum og fyrst hún seldist svona vel væri rétt að hækka hana. Í því tilfelli var t.d. ekki hugsað um heilsufarið. Sömuleiðis get ég nefnt GATT-samninginn sem mér er til efs að hafi hvatt til neyslu á hollum afurðum þar sem ákveðnir verndartollar eru settir samkvæmt þeim samningi á grænmeti.

Sömuleiðis er mér kunnugt um og mundi kannski hafa gaman af að fá að heyra aðeins frá heilbrrh. varðandi neyslukönnun þá sem er í undirbúningi. Mögulega gæti hún fléttað inn í svar sitt einhverjum fréttum af því hvernig henni vindur fram.

En grunnspurningin er þessi: Hvað líður endurskoðun þessarar manneldis- og neyslustefnu og hvernig hefur gengið að ná markmiðum hennar?