Bygging heilsugæslustöðvar í Voga- og Heimahverfi

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:25:38 (2850)

2000-12-06 15:25:38# 126. lþ. 42.5 fundur 306. mál: #A bygging heilsugæslustöðvar í Voga-og Heimahverfi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller beinir til mín svohljóðandi fsp.: Hvað líður áformum um byggingu heilsugæslustöðvar í Voga- og Heimahverfi?

Hinn 1. júlí 1996 var gerð skýrsla og í framhaldi af því unnið að forgangsröðun varðandi uppbyggingu í heilsugæslu í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég ætla hins vegar að minna á að frá því hafa farið 700 millj. kr. --- ég endurtek, 700 millj. kr. --- í beina uppbyggingu í heilsugæslunni og það á við um Mosfellssveit, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Keflavík, auk Reykjavíkur.

Í forgangsröðun í Reykjavík var gert ráð fyrir að fyrst skyldi byggja upp í Fossvogi og sú stöð var opnuð fyrir ári í Efstaleitinu, mjög myndarleg heilsugæslustöð. Næst á listanum var Grafarvogur og þar var ákveðið að fara í miklar endurbætur og stækkun. Sú viðbót kemst í notkun síðla á næsta ári. Þetta tvennt var efst á lista á Reykjavíkursvæðinu og næst á að fara í Voga- og Heimahverfi.

Það kom fram í máli hv. þm. áðan hver þjónaði þessu svæði. Því er sinnt frá Lágmúla, það er hárétt hjá hv. þm., og áætlað er að þeir læknar sem eyrnamerktir eru Voga- og Heimahverfi muni flytjast með í nýtt húsnæði þegar af verður. Við höfum skoðað ýmsa möguleika í Voga- og Heimahverfi og aðallega skoðað það húsnæði sem til staðar er í dag. Ekkert af því sem við höfum getað fengið til kaups eða leigu fyrir heilsugæsluna hefur hentað fyrr en nú að við höfum fengið tilboð frá Hrafnistu sem er að fara að byggja mjög myndarlegt hús og á góðum stað. Viðræður eru hafnar við Hrafnistumenn um að taka á leigu húsnæði hjá þeim. Ef af verður, sem mér sýnist geta orðið, getum við opnað þá heilsugæslustöð snemma árið 2002.

Eins og ég sagði áðan hefur orðið alveg geysileg uppbygging í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Til þess hefur ríkið lagt mikið fé. Það er mikil þensla á þessu svæði og mikill fólksflutningur hingað og þess vegna höfum við þurft að fjölga læknum mjög verulega. Ætli það séu ekki komnir um 25 nýir læknar á þetta svæði frá árinu 1996. Það hefur því verið geysilega uppbygging. En ef af því verður sem ég kynnti áður, með Voga- og Heimahverfi, förum við fram úr okkar björtustu vonum frá því að við lögðum af stað með stefnumótunina árið 1996.