Bygging heilsugæslustöðvar í Voga- og Heimahverfi

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:32:41 (2854)

2000-12-06 15:32:41# 126. lþ. 42.5 fundur 306. mál: #A bygging heilsugæslustöðvar í Voga-og Heimahverfi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í fyrri ræðu minni höfum við farið algjörlega eftir þeirri forgangsröð sem við settum okkur árið 1996 um uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík og á Reykjanessvæði þannig að við erum ekki á eftir okkur sjálfum heldur erum við komin fram úr okkur í því. Við getum vel við unað enda vona ég að þetta gangi upp sem ég kynnti hér áðan.

Hér kom fram að heilsugæslunni hefur verið boðið húsnæði á Reykjavíkursvæðinu. Það er alveg rétt. En ég sagði líka í ræðu minni að það húsnæði hentaði ekki heilsugæslunni. Því er þá betra að bíða og fara leiðir sem henta.

Í máli hv. þm. Ástu Möller kom fram að hún óskaði þess heitast að þetta yrði einkavætt og það vill nú svo til að þetta er sú stöð sem við ætlum að gera tilraunir með í Voga- og Heimahverfið. Um það var rætt strax 1996 að þessi stöð yrði rekin eins og Lágmúlastöðin er rekin eða á svipaðan hátt. Það er ekki þar með sagt að við ætlum að hlaupa til og einkavæða alla heilbrigðisþjónustuna eða heilsugæsluna. Ég held að sé ágætt að hafa samanburðinn og fara þar nokkuð rólega.