Áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:45:01 (2860)

2000-12-06 15:45:01# 126. lþ. 42.6 fundur 282. mál: #A áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Mér finnst vanta aðgerðir í þessu máli. Hér er talað ár eftir ár um að til sé samþykkt um að hefja hvalveiðar og síðan er talað um að kynna þurfi málið og að því loknu, einhvern tíma í framtíðinni, eigi síðan að hefja veiðarnar. Mér finnst að sífellt fleiri vísbendingar bendi til þess, og m.a. það svar sem ég vitnaði hér til og sjútvrh. hæstv. staðfesti í rauninni í svari sínu, að við erum að ganga gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar með því að hefja ekki veiðarnar. Með því að nýta ekki hvalastofnana erum við með minni nýtingu á þorskstofninum og samkvæmt því línuriti sem birtist í svari fyrir örfáum vikum var sýnt að þorskveiðin gæti hugsanlega orðið 100 þús. tonnum minni árið 2023 en hún ella gæti orðið ef við stunduðum hvalveiðar og héldum stofnunum niðri. Þegar á næsta ári gæti þetta munað 30--50 þús. tonnum.

Hæstv. sjútvrh. talar um að Hafrannsóknastofnun meti þetta til 75 þús. tonna í framtíðinni. Hvor talan sem er, jafnvel þó að við værum ekki að tala um nema 20 þús. tonn, þá tel ég að okkur sé ekki stætt á því að neita mönnum um að stunda þá atvinnu sem beinlínis er hagstæð og hagkvæm íslensku þjóðinni og það stangist á við stjórnarskrá okkar.