Áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:47:05 (2861)

2000-12-06 15:47:05# 126. lþ. 42.6 fundur 282. mál: #A áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég held að ekki beri mikið í milli í hinum tölulegu upplýsingum sem við vitnum í, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, og óþarfi að deila um það. Það er hins vegar rangt hjá honum að aðgerðir vanti. Það stendur yfir kynning á málstað okkar samkvæmt þeirri ályktun sem samþykkt var á vorþingi 1999 og sú kynning mun halda áfram á næsta ári og verða aukin samkvæmt þeim tillögum sem samþykktar voru við 2. umr. fjárlaga um að auka fjármagn til þeirrar kynningar.

Hvað varðar hins vegar hrefnuveiðar Norðmanna, þá eru þær á annan veg en við mundum hátta okkar hvalveiðum þegar til þeirra kemur. Þeir eru að veiða en flytja ekki afurðirnar út og það tel ég ekki vera kost sem mundi henta okkur. Reyndar er staðan sú að Norðmenn stefna ekki að því að veiða 1.000 hrefnur á næsta ári heldur munu þeir draga saman og veiða liðlega 500 hrefnur. Það verður þá í annað skiptið í röð sem þeir minnka hrefnuveiðikvótann og er það í samræmi við þær ástandsmælingar sem þeir hafa gert á stofninum.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni um að þegar við hefjum hvalveiðar eigum við ekki að einskorða það við eina tegund heldur eigum við að veiða þær tegundir sem Hafrannsóknastofnun telur að þoli sjálfbærar veiðar.

En unnið er að málinu fullkomlega í samræmi við ályktun Alþingis frá vorþingi 1999.