Uppgjör vegna innlausnar íbúða í félagslega íbúðakerfinu

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:57:59 (2866)

2000-12-06 15:57:59# 126. lþ. 42.7 fundur 302. mál: #A uppgjör vegna innlausnar íbúða í félagslega íbúðakerfinu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um neinn sérstakan ágreining milli aðila í þessu máli. Reyndar er það félagsmálaráðuneytisins að fara með þennan málaflokk gagnvart sveitarfélögunum, en það er náttúrlega vitað að ágreiningur er milli þess ráðuneytis og einstakra sveitarfélaga um ákveðna þætti í framkvæmd þessara mála. Á ég þar við innlausnarskyldu og þess háttar hluti svo sem hv. þm. er kunnugt um.

En varasjóðurinn er eins og ég segi frekar nýtilkomið fyrirbæri og kannski ekki alveg búinn að festa sig í sessi að því er varðar vinnureglur og fleira þess háttar. Eðlilegt er að hann fái að þróast og móta starfsreglur sínar og þær viðmiðanir sem hann hyggst starfa eftir á grundvelli þeirrar reglugerðar sem um hann gildir.

Ég endurtek það sem ég sagði um árið 2001, að hugmyndin er að reyna að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu á grundvelli þess heildarumfangs sem er um að ræða hér. (JB: Þörfinni á ...) Hvort búið er að uppfylla allar ýtrustu þarfir sjóðsins treysti ég mér ekki til að segja um. Hitt veit ég að 15 millj. kr. afgangur var í fyrra og það stefnir í u.þ.b. 60 millj. kr. tap á þessu ári þannig að það ætti að vera nægjanlegt að ríkið leggi 50 millj. í sjóðinn á þessu ári.

Að því er varðar eldri tíma og fyrirspurn hv. þm. Árna Ragnars Árnasonar, þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki í stakk búinn til þess að svara henni hér.