Skattlagning fríðinda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 16:01:23 (2868)

2000-12-06 16:01:23# 126. lþ. 42.8 fundur 305. mál: #A skattlagning fríðinda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Um skattlagningu þeirra atriða sem hv. þm. nefndi gilda almenn ákvæði tekjuskattslaganna. Í 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. þeirra segir að til skattskyldra tekna teljist, með leyfi forseta:

,,Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. ... Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum.``

Samkvæmt þessu telst til skattskyldra tekna afhending á vöru eða þjónustu sem veitt er án þess að fyrir hana komi eðlilegt gjald.

Í öðru lagi er spurt hvort fyrir liggi í hagtölum um tekjur launamanna hve háum fjárhæðum þær tekjur starfsmanna sem þannig eru greiddar nema og hve hátt hlutfall þær eru af heildartekjum þeirra.

Á framtölum launamanna ber þeim að gera grein fyrir skattskyldum hlunnindum. Sömuleiðis ber launagreiðendum á launaskýrslum til skattyfirvalda að greina frá þeim hlunnindum sem starfsmenn þeirra hafa notið. Við skráningu skattupplýsinga er framtöldum hlunnindum almennt haldið sérgreindum en þau ekki sundurliðuð sérstaklega, t.d. eftir því hvort um er að ræða vörur eða þjónustu. Samkvæmt framtölum árið 1998, sem er síðasta ár sem upplýsingar um þetta hafa verið teknar saman um, voru hlunnindi önnur en bifreiðahlunnindi 409 millj. kr. Sú fjárhæð er 0,16% af tekju- og útsvarsstofni það ár. Ekki liggur fyrir frekari skilgreining á þeirri fjárhæð.

Að lokum er spurt hvort fyrir liggi í greiningu tekjuskattsstofns hve háum fjárhæðum tekjuskattur af þessum tekjum nemur. Svarið við því er nei. Hlunnindi þessi eru talin með almennum tekjum og skattlögð í einu lagi ásamt þeim. Þar af leiðir að sérgreind skattlagning þessara hlunninda liggur ekki fyrir né tölulegar upplýsingar um hver hún gæti verið.