Skattlagning fríðinda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 16:04:14 (2870)

2000-12-06 16:04:14# 126. lþ. 42.8 fundur 305. mál: #A skattlagning fríðinda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég hygg að sú ábending sem fram kemur í máli þingmannsins geti fyllilega átt við rök að styðjast. Ég tel þó ekki að um sé að ræða skort á skýrum lagaákvæðum eða þörf á að breyta núgildandi lagaákvæðum heldur er þarna frekar um að ræða spurninguna um skattframkvæmd og skatteftirlit, þ.e. hvernig núverandi lögum er framfylgt. Kannski er ástæða til þess að beina því til þeirra aðila sem um þau mál fjalla að fylgjast vel með framkvæmdinni að þessu leyti.