Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:34:47 (2873)

2000-12-07 10:34:47# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá málshefjanda. Það liggur ekkert fyrir þinginu varðandi einkavædd sjúkrahús. Ég vil endurtaka það sem ég hef sagt áður bæði í þinginu og opinberlega að ég mun ekki heimila byggingu einkavædds sjúkrahúss hér á landi. Fyrir því eru mjög mörg rök.

Rökin eru fyrst og fremst þau að við erum fámenn þjóð, rúmlega 270 þúsund manns. Við þurfum að geta mannað allar neyðarvaktir, allar næturvaktir og kvöldvaktir. Ef meginþorri hjúkrunarfólks og lækna ætlar að fara út í einkarekstur, hver á þá að reka stóru sjúkrahúsin? Þetta eru ein rökin.

Ef við lítum til annarra landa sjáum við að það er dýrara kerfi, hið svokallaða einkavædda kerfi. Það viðgengst mikil mismunun í því kerfi. Við höfum lagt meira fjármagn til heilbrigðismála á undanförnum fjórum árum en nokkru sinni fyrr. Við höfum sameinað stóru spítalana til að nýta betur tæki og dýra tækni sem við höfum aflað okkur. Það væri út í hött að fara að byggja upp nýtt sjúkrahús úti í bæ í stað þess að nýta þá fjármuni til að stytta biðlistana. Ég vil að það komi fram að biðtími eftir aðgerðum hefur styst. Ég er að tala um biðtíma.

Ég þakka fyrir að fá að svara þessu hér því að þetta er mjög mikið í umræðunni.