Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:55:48 (2883)

2000-12-07 10:55:48# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 en það samstarf er liður í Schengen-samstarfinu.

Samkvæmt 7. gr. samningsins milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um þátttöku síðargreindu landanna í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel þann 18. maí 1999 er þátttaka Íslands og Noregs í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins forsenda fyrir þátttöku landanna í Schengen-samstarfinu. Dyflinnarsamningurinn mælir fyrir um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Er samningnum ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma þannig í veg fyrir að umsækjandi sé sendur úr einu ríki í annað án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Með samningnum er því bætt réttarstaða þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu.

Af Dyflinnarsamningnum leiðir að einungis eitt ríki ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli. Í 4.--8. gr. samningsins eru nákvæmlega afmörkuð þau atriði sem ráða því hvaða ríki ber ábyrgð á meðferð beiðni í hverju tilviki fyrir sig. Þetta breytir því hins vegar ekki að hvert ríki getur tekið beiðni til meðferðar þótt því sé það ekki skylt enda samþykki umsækjandi það. Í þeim tilvikum færist ábyrgð um meðferð beiðni til viðkomandi ríkis.

Þegar fram kemur beiðni um hæli í ríki sem ber ekki ábyrgð á meðferð málsins getur það óskað eftir því að það ríki sem ber að taka mál til meðferðar taki umsækjanda um hæli í umsjá sína. Nánari reglur þar að lútandi koma fram í 10. og 11. gr. samningsins.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir Dyflinnarsamningnum og mun næst víkja að efni frv. Í 1. gr. frv. er lagt til að nýr málsliður bætist við 10. gr. laganna þess efnis að útlendingur eigi ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins, að taka við honum. Þetta ákvæði er sett til samræmis við meginefni samningsins.

Þá er lagt til í 2. gr. að heimilt verði að miðla upplýsingum um útlendinga til erlendra stjórnvalda í samræmi við reglur Dyflinnarsamningsins. Sérstaklega skal áréttað að þessi heimild tekur einungis til þeirra upplýsinga sem raktar eru í samningnum. Um miðlun upplýsinga milli þeirra landa sem taka þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins gildir 15. gr. samningsins og það ákvæði tryggir ríka vernd persónuupplýsinga.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. og 2. umr.