Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:02:45 (2886)

2000-12-07 11:02:45# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Vafinn verður til vegna þess að flóttamaðurinn kemur ekki beint frá landinu sem hann flúði til landsins sem hann sækir um hæli í heldur hefur haft einhverja millidvöl í öðru landi. Í greininni sem Alþingi á að samþykkja segir m.a.:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Þetta byggist á reglunni um svokallað ,,third safe country``, þriðja ríkið. Ég spyr, herra forseti, af því að mér finnst mikilvægt að það komi fram hér í upphafi umræðu: Í hvaða tilfellum er hugsanlegt að flóttamaður yrði sendur til okkar, af því að það er eiginlega ekki hægt að gefa sér að flóttamaður komi hingað beint frá ríki þar sem hann býr við einhverja erfiðleika? Hann hefur komið til einhvers lands áður. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvort við erum hér að lögfesta einhliða ákvæði sem fríar okkur alltaf ábyrgð ef flóttamann ber að garði hjá okkur, þ.e. í raun og veru þannig að aðrir þurfa alltaf að taka við honum. Í hvaða tilfellum væri hægt að senda flóttamanninn til okkar sem þriðja örugga ríkis? Þetta er spurningin, herra forseti.