Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:04:55 (2888)

2000-12-07 11:04:55# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á svari hæstv. dómsmrh. Það er mjög líklegt að með lögfestingu þessa ákvæðis beri Ísland eiginlega aldrei neina ábyrgð, að Ísland sé búið að lögfesta ákvæði með tilvísun í Dyflinnarsamninginn sem fríar Ísland alltaf af því að taka við flóttamönnum eins og Ísland hefur reynt að fría sig hingað til. Er ég þá að vísa til þeirra hælisleitandi flóttamanna sem hefur borið að garði hjá okkur, en að það sé e.t.v. í engum tilfellum hætta á því, frá sjónarhóli þeirra sem þannig hugsa, að flóttamaður sé sendur til okkar á grundvelli þessa samnings.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að veittur var frestur á því að taka þetta mál til umræðu. Það var á dagskrá þingsins á mánudagskvöld og gerði ég miklar athugasemdir við það að hæstv. ráðherra var búin að kynna í fjölmiðlum að von væri á heildstæðu frv. til laga um útlendinga og kynna allmörg ákvæði þess frv. án þess að það væri komið hingað inn í þingið. Taldi ég afar mikilvægt með tilliti til faglegra og góðra vinnubragða Alþingis að þetta frv. kæmi og að næðist að setja það á dagskrá jafnhliða hinu litla ákvæði hér sem verið er að lögfesta, ef frv. það sem hér er til umræðu verður að lögum. Nú er þetta frv. til laga um útlendinga á borðum þingmanna. Að vísu var mér tjáð í gær að það væri mjög stórt, það væri yfir 100 blaðsíður og að ekki væri unnt að fá það fram í dag. Ég gleðst því yfir að sjá það á borðum okkar. En ég verð auðvitað að taka það fram að ekki hefur gefist nokkur tími til að skoða hvað í því felst til þess að draga að einhverju leyti og með einhverju viti, upplýsingar úr því inn í þessa umræðu.

Hins vegar finnst mér skipta miklu máli að það er komið fram og vil hvetja til þess að reynt verði að koma því á dagskrá hið fyrsta þannig að það liggi fyrir og verði tekið til meðferðar í hv. allshn. samhliða því frv. sem við erum nú að skoða.

Ég ætla að spyrja hæstv. dómsmrh. nánar út í það hversu brýn afgreiðsla þess frv. sem við erum nú að fjalla um sé. Það er erfitt, þó maður lesi greinargerðina, að átta sig á því hvort það sé nokkurt grundvallaratriði að afgreiða það fyrir jól þrátt fyrir að þar sé tilvísun til Schengen-samstarfsins. Ég tek það fram að minn flokkur, Samfylkingin, hefur stutt Schengen-samstarfið og stendur að því. Í kafla II í greinargerð með frv. sem er hér á dagskrá segir að þetta sé tilvísun í samning og samkomulag sem eigi að gera á milli landanna en þeim samningaviðræðum um þátttöku landanna í samstarfi sé enn ekki lokið. Ef samningaviðræðum um þátttöku landanna í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins er ekki lokið, finn ég til efasemda um að við þurfum að flýta okkur á síðustu dögum fyrir jól að afgreiða þetta frv. Það sem ég er að segja er að best væri ef við gætum afgreitt stóra frv., sem er reyndar ekki nema 48 greinar --- megnið af þessum pappírum er greinargerð --- í einu lagi og það væri til sóma fyrir okkur.

Herra forseti. Ég hef gagnrýnt að í mörg ár hefur frv. um réttindi útlendinga ekki séð dagsins ljós hér og ég hef gagnrýnt það að ekki er mikil reisn yfir því að ný lagagrein við hundónýt lög sé lögfest af því að það tryggir á engan hátt mannsæmandi réttindi útlendinga sem hingað leita. Allmörg ár eru síðan farið var að spyrja um úrbætur. Fyrirrennari hæstv. dómsmrh. var margoft hvattur til þess að þessi lög kæmu fram og einu sinni var frv. lagt fram og m.a. kynnt mannréttindasamtökum. Athugasemdir voru gerðar og frv. hvarf á ný. Það var ekki lögfest hér. Ekki kom það aftur til Alþingis og síðan eru liðin nokkur ár. Biðin er orðin löng, herra forseti.

Þær athugasemdir voru gerðar, t.d. af hálfu Amnesty, að ákvæði um réttláta meðhöndlun fólks sem leitar pólitísks hælis hérlendis vantaði og bent var á að Íslendingar eru aðilar að flóttamannasáttmálanum og ber skylda til að laga eigin löggjöf að þeim ákvæðum sem þar er að finna um meðferð pólitískra flóttamanna. Þeir gagnrýndu á þessum tíma, í nóvember 1993, að þrátt fyrir að verið væri að breyta ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þá hefði ýmsum þeim lögum ekki verið breytt í kjölfarið sem þurfa að vera í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur um meðferð pólitískra flóttamanna.

Þetta er mjög þýðingarmikið fyrir okkur, herra forseti, vegna umræðu okkar um t.d. skýrslu hæstv. utanrrh. Þá höfum við rætt um viðhorf Íslendinga til flóttamanna. Við höfum rætt um viðhorf okkar til mannréttinda. Við viljum vera mannréttindaþjóð. Við erum með mjög þýðingarmikil ákvæði í stjórnarskránni sem styðja mannréttindi og gera okkur að þjóð sem byggir á mannréttindum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fylgjum því eftir í lagasetningu á því sviði. Einmitt þess vegna og út af því sem hefur átt sér stað í fjölmörg skipti við umræðu um skýrslu utanrrh., að sífellt er minnt á að það er gott og blessað að hafa fögur orð uppi um afstöðu okkar til flóttamanna t.d., þá verðum við líka að klára málið og setja lög. Nauðsynlegur metnaður dómsmrh. til þess að hraða þeirri vinnu sem staðið hefur árum saman og birtist okkur nú í 48 greina frv. hefur ekki verið til staðar þannig að það gæti komið hingað inn og við sett heildstæða löggjöf og fullnægt um leið því sem sagt er hér að verði fullnægja vegna Schengen-samkomulagsins.

Ég hef getið þess oft, m.a. í fyrirspurnum varðandi þessi mál, hve mikilvægt sé að taka heildstætt á málum útlendinga. Ég hef oftast talað um flóttamenn og sérstaklega hælisleitandi flóttamenn, en hvernig við höfum haldið á þeirra málum hefur ekki verið okkur til sóma. Sérstaklega hefur Amnesty verið mjög andvígt valdboðinni endursendingu einstaklinga og því sem er kallað ,,refulment`` í þessum samningi og finnst mjög mikilvægt að setja réttlátar, óvilhallar og gagngerar réttarreglur um stöðu flóttamanna, reglur sem tryggi að hægt verði að ganga fullkomlega úr skugga um á hvaða forsendum beiðni hvers einstaklings um hæli er byggð. Amnesty hefur hvatt ríkisstjórnir til að hneppa ekki flóttamenn eða hælisbeiðendur í varðhald nema sú ákvörðun sé í fullu samræmi við þar að lútandi alþjóðlegar reglur. Það hefur ekki verið okkur til framdráttar, af því að við höfum m.a. lent í þessu, að vera ekki með reglur sem hægt hefur verið að vísa til og hafa þekktir lögmenn hér á landi bent á það og gagnrýnt stjórnvöld mjög fyrir þessi vinnubrögð. Ragnar Aðalsteinsson hefur m.a. alloft talað um stöðu útlendinga og dregið fram hve miklar breytingar hafa orðið í okkar þjóðfélagi, að við Íslendingar þurfum ekki lengur að leggja land undir fót í leit að betra lífi, en margir aðrir búa við aðstæður svipaðar þeim og voru í Noregi á 9. öld þegar menn fluttust hingað og á Íslandi á þeirri 19. Þetta fólk leitar sömu leiða og þeir sem flúðu Noreg og Ísland. Það býr jafnvel við ofríki valdhafa eða annarra afla og lífskjör þess eru jafnbág eða verri en voru á þessum tíma. Það hefur komið fram m.a. í orðum hans, og það hefur líka verið til umræðu hjá mannréttindasamtökum, að Evrópumenn eru núna að bregðast við vandanum þegar þetta fólk fer að hreyfa sig með því að segja að nú sé komið að því að loka Evrópu fyrir þeim sem leita betri lífskjara og aukins frelsis, ytri landamærum EES-landanna, Noregs, Íslands og Liechtenstein skuli lokað fyrir utanaðkomandi sem leita betra lífs, a.m.k. þangað til þörf verður á nýju vinnuafli. Og það þekkjum við, herra forseti. Þegar þörf er á nýju vinnuafli, opnum við hurðina a.m.k. í hálfa gátt.

[11:15]

Því miður hefur það gerst hjá okkur sem við trúðum ekki að það væri hlutskipti þessarar þjóðar, þessarar opnu þjóðar sem virkar svo fordómalaus, að hér á landi leynist jafnmikil útlendingaandúð og í þeim löndum þar sem slíkt hefur komið upp á yfirborðið.

Herra forseti. Eins og hefur komið fram í máli Ragnars Aðalsteinssonar eru sumir þeirra útlendinga sem hingað koma flóttamenn og koma með skipulegum hætti á vegum stjórnvalda í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Aðrir koma á eigin vegum, oftast einir eða í fámennum hópum og leita hælis vegna þess að þeir sæta ofsóknum í heimalandi sínu. Það virðist stefna íslenskra stjórnvalda að neita hælisleitendum um griðland á þessum forsendum. Örfáum hefur verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Við hljótum að spyrja að því hvort við Íslendingar ætlumst til þess að grannþjóðir skuli einar annast flóttamenn og veita flóttamönnum hæli enda þótt þær búi við sárustu fátækt. Við vitum að þau lönd sem liggja upp að þeim löndum þar sem gífurlegir erfiðleikar hafa verið, annaðhvort af hálfu náttúruhamfara, af hálfu viðkomandi stjórnarfars, ofsókna, pólitískra ofsókna, verða fyrir miklum þunga af hælisleitandi fólki. Það er í raun og veru það sem er svo alvarlegt við regluna um að mega senda til baka. Það er gott að geta fríað sig ábyrgð og sent til baka og þá þarf maður maður ekki að taka fyrir óþægilegar samviskuspurningar af því að maður er aðili að einhverjum samningi sem segir: Þriðja örugga land er þannig að þú getur sent þangað.

Við erum svo heppin að fólk sem kemur til okkar er yfirleitt að koma frá Bandaríkjunum eða frá Norðurlöndunum eða frá örfáum áfangastöðum í Evrópu. Næstum því allir sem eiga í erfiðleikum eða um sárt að binda eru búnir að koma við annars staðar áður en þeir koma hingað. Það er staðan okkar og það er í raun og veru staða Norðurlandanna og það er mjög mikilvægt að Norðurlöndin axli á ákveðinn hátt ábyrgð sína en mikilvægast er að í allri vinnunni sé mjög tryggt að farið sé að kröfum mannréttindasamtaka.

Ég ætla ekki að fara yfir regluna um fyrsta griðland, hún er ekki í alþjóðasamþykktum, hún er ekki alþjóðaregla heldur er hún samningsregla sem hefur verið búin til. Þar sem ég býst við að aðrir talsmenn Samfylkingarinnar í þessari umræðu muni koma nánar inn á það ætla ég ekki að fara yfir það sem felst í hvorki þriðja landi né fyrsta griðlandi.

Ég ætla að rifja upp það sem hefur verið haldið fram af hálfu mannréttindasamtaka að þeim hafi verið synjað um að sjá alla úrskurði til að geta áttað sig hvort brotið hafi verið á þeim sem hingað hafa leitað. Það er sagt að eins og lögin eru í dag megi senda fólk til baka sem uppfylli ekki lög nr. 45/1965 en þar er gerð krafa um vegabréf, áritun, fyrir fram útvegað dvalarleyfi, fjölskyldutengsl, aðsetur á Íslandi til að sjá um sig sjálfur, gildan farmiða til baka o.s.frv.

Flóttamannasamningurinn segir hins vegar að kynna skuli slíkum einstaklingi réttindi strax í upphafi komu og það eigi strax að útvega lögfræðing, kynna allar reglur og númer eitt, tvö og þrjú að stuðla að faglegri meðferð á viðkomandi. Það er mat þeirra sem fjalla um málefni útlendinga að engin leið sé fyrir okkur að taka upp og framkvæma Schengen-samninginn fyrr en við höfum sett löggjöf um flóttamenn, um hælisleitendur, um vinnuafl og um útlendinga almennt. Það er auðvitað það, herra forseti, sem ég er að vona að finnist í því frv. sem við höfum ekki haft tækifæri til að skoða nema að litlu leyti. Ég hef rennt yfir greinarnar meðan 2. umr. fór fram og ég sé að ýmislegt er tekið fram um málefni flóttamanna. Ég hef ekki getað séð hvort verið er að taka á málefnum útlends vinnuafls í þessu frv. og gera því ítarleg skil. Ég hef heldur ekki haft tækifæri til að sjá það hvort verið er að festa í lög þau mikilvægu réttindaákvæði sem mannréttindasamtökin hafa bent á. En ég sé t.d. í 24. gr., þar er fjallað um andmælaréttinn, og að áður en ákvörðun er tekin í máli útlendings skuli hann eiga kost á að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega þó að réttur til að tjá sig skriflega sé ekki fyrir hendi þegar útlendingi ber að tjá sig við vegabréfaeftirlit eða lögreglu munnlega.

Ég hef rekið mig á það líka í 34. gr. að dómari skal skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna. Hér er kafli um vernd gegn ofsóknum og flóttamenn. Og í 45. gr. segir: ,,Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis.``

Þetta er vandi okkar. Það eru sum lönd, jafnvel í tiltölulega miklu nágrenni við okkur, sem eru ekki alveg örugg fyrir ýmsa hópa og þarna reynir á okkur, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Það er svo mikill kliður í salnum.)

Já, ég þakka forseta fyrir að hafa brugðist við þessum aukafundi en, herra forseti, ég hef komið með flestar athugasemdir sem ég vildi koma með við þetta frv. Ég mundi hins vegar telja að það væri afskaplega mikilvægt að allshn. hefði tækifæri til að fara yfir bæði frv. sem nú liggja fyrir, það sem er hér á dagskrá og það frv. sem liggur á borðum okkar áður en fyrra frv. verður afgreitt. Mér finnst að það séu góð vinnubrögð og það sé liðinn svo langur tími frá því var byrjað að kalla eftir heildarlöggjöf um málefni útlendinga að mér finnst okkur ekki stætt á því að koma með eina smábótina enn þá við gömul og úrelt lög um málefni útlendinga eins og fyrir liggur að við gerum með staðfestingu þessa frv. Það hefur áður gerst að frv. um heildarlöggjöf um málefni útlendinga hefur komið hingað inn í þingið en hefur ekki orðið að lögum og það hafa liðið mörg ár þangað til það kom aftur, þ.e. á þessum morgni. Við verðum að fara að komast út úr því að hægt sé að áfellast okkur fyrir að vera ekki þjóð með sómasamlega löggjöf um það hvernig við meðhöndlum fólk af útlendu bergi brotnu sem kemur hingað til dvalar, sem tímabundið vinnuafl, sem leitar hingað vegna ástands heima fyrir, er annaðhvort boðið hingað í sérstökum útvöldum hópum eða kemur hér og ber að dyrum og biðst ásjár. Við getum ekki verið þekkt fyrir það.

Herra forseti. Ég ætla að enda umræðuna á því sem ég byrjaði á: Ég er mjög sátt við og þakka fyrir það að þetta frv. skuli vera komið á borð þingmanna en ég óska jafnframt eftir því að annað fylgi á eftir, þ.e. að málin verði skoðuð saman í allshn.