Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:52:25 (2898)

2000-12-07 11:52:25# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:52]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í þennan belg. Vegna ummæla hv. þm. Ögmundar Jónassonar um evrópska stórríkið langar mig til að nota tækifærið til þess að minna hann á að það kom fram í umræðunni um fiskimjölið fyrr í þessari viku að ef Íslendingar væru ekki þátttakendur í Schengen hefðu íslenskir embættismenn ekki haft tækifæri til að húka á göngunum þar sem samningaviðræðurnar fóru fram og hefðu alls ekki komist inn í það hús. Það eru ýmsar hliðar á Evrópusamstarfinu sem Ögmundur Jónasson þyrfti kannski að kynna sér aðeins betur.

Burt séð frá því, herra forseti, er auðvitað ljóst að með aðild okkar að Schengen erum við líka að gerast aðilar að Dyflinnarsamningnum eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra. En eins og hefur líka komið fram í máli hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Rannveigar Guðmundsdóttur er málið ekki alveg einfalt. Ég geri fyrst og fremst athugasemdir við vinnubrögðin.

Nú er það svo að þetta litla frv., sem lætur ekki mikið yfir sér, kemur inn í desember. Okkur er sagt að þetta þurfi að verða að lögum fyrir áramót vegna gerðra samninga sem tengjast Schengen. Gott og vel. En útfærsla þessa frv. byggir á öðru frv. sem var dreift á borð þingmanna í morgun, frv. til laga um útlendinga sem beðið hefur endurskoðunar árum saman, skilst mér, og ekki seinna vænna að hið háa Alþingi taki það til vandlegrar endurskoðunar og setji loks lög um réttindi útlendinga hér á landi sem eru í takt við þá tíma sem við lifum á og tryggja í raun og veru réttindi útlendinga.

Þess vegna þykir mér afar miður, herra forseti, að málin skuli hafa komið fram í þessari röð vegna þess að það er nokkrum erfiðleikum bundið að afgreiða það frv. sem hér um ræðir án þess að hafa farið vandlega í gegnum umræðuna um hitt frv., stóra frv. um útlendinga. Þessi mál eru þannig vaxin að þau eru mjög viðamikil og flókin og þau krefjast mjög vandlegrar skoðunar af hv. þingmönnum og í nefndum. Ég vil þá fyrst og fremst ítreka þá spurningu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði fram, hvort það sé algjörlega nauðsynlegt að ná fram því frv. sem um ræðir fyrir áramót. Það er líka rétt að benda á að Dyflinnarsamningurinn nær bara til ESB-landanna og í honum er kveðið á um að enginn vafi leiki á um hvar umsókn um hæli skuli tekin til meðferðar. Það er vissulega réttarbót að enginn vafi leiki þar á þannig að hægt sé að senda viðkomandi til annars lands eða þess lands innan ESB eða inni á Schengen-svæðinu þangað sem hann kom fyrst.

Hins vegar er alveg rétt eins og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að við getum sett um þetta lög og reglur sem við viljum hafa á Íslandi. Okkur er fullkomlega frjálst að taka á móti þeim sem við viljum taka á móti burt séð frá því hvaðan þeir koma eða við hvaða aðstæður eða hvort þeir koma frá landi innan Schengen-svæðisins. Það rennir enn frekari stoðum undir það að við þurfum að taka þessi mál í réttri röð og ræða fyrst um réttindi útlendinga samkvæmt stóra frv.

Mig langar hins vegar til að benda á það, af því að þessi umræða hefur verið svolítið Evrópumiðuð hingað til, að við erum ekki að tala um að senda fólk, eða hér er ekki fjallað um það hvort og hvernig eigi að afgreiða mál hælisleitenda sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins. Það er mjög brýnt að hafa það í huga af því að mér finnst kannski ekki allir hafa talað þannig um málin hér. Ég er þess fullviss að langflestir hælisleitendur koma til Evrópu frá löndum utan Schengen-svæðisins. Við skulum hafa það í huga við umfjöllun þessa máls og þau mál eru auðvitað viðamikil en sýna enn og aftur nauðsyn þess að við á Íslandi setjum okkur lög og reglur sem eru viðunandi og tryggja réttindi útlendinga hér á landi.