Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 12:27:49 (2901)

2000-12-07 12:27:49# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[12:27]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram mjög mikilvæg umræða um réttindamál og í rauninni hafa tvö frv. verið dregin inn í umræðuna þó að það frv. sem hér hefur verið tekið á dagskrá sé eingöngu um eitt ákvæði og rétt Íslands til að senda flóttamann, hælisleitandi flóttamann til annars lands. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að þetta mál verði skoðað mjög ítarlega í nefnd og ég mun óska eftir því við fulltrúa Samfylkingarinnar í allshn. að þeir fari mjög vel yfir frv. sem liggur á borðum þingmanna og fjallar um heildarlöggjöf um málefni útlendinga til að kanna hvort verið sé að taka á þeim málum sem við höfum kallað eftir á liðnum árum að væru fest í lög og varða bæði réttindi útlendinga og vernd, þannig að ljóst sé að í bígerð er að setja lög sem eiga auðvitað að koma áður en við samþykkjum það ákvæði sem hér er lagt til.

Í lokin, herra forseti, vil ég gjarnan rifja það upp að Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra. Þjóðréttarsamningar eru að sjálfsögðu leiðbeinandi, þeir taka náttúrlega ekki yfir íslensk lög en með undirritun slíkra samninga erum við að taka á okkur ákveðnar skuldbindingar og okkur hættir til að ákveða að við getum farið frjálslega með sumar þessara skuldbindinga.

Ég ætla að leyfa mér að rifja upp hvaða samningar ættu við í því máli sem við höfum verið að ræða hér. Það er auðvitað fyrst og fremst flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna frá 1951, en ég minni á að 1968 var fullgiltur viðbótarsamningur við þann samning, við samninginn um stöðu flóttamanna og er bæði flóttamannasamninginn og viðaukann að finna í frv. um heildarlöggjöf í málefnum útlendinga sem er nú á borðum okkar.

[12:30]

Við skulum líka hafa það alveg á hreinu að sá útlendingur telst flóttamaður sem ,,er utan heimalands síns ... af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa þangað aftur``. --- En það kemur líka fram, herra forseti, af því ég er að vísa til orða í grg. með frv. um heildarlöggjöf um réttindi útlendinga, að: ,,Samkvæmt þessu verður útlendingur að hafa raunverulega ástæðu til að óttast ofsóknir til að skilgreiningin eigi við um hann. Ekki er fyrir hendi samræmd alþjóðleg túlkun á flóttamannahugtakinu sem einstök lönd eru bundin af. Það er því hvers lands að taka afstöðu til þess hvort útlendingur telst flóttamaður. Hins vegar hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gefið út handbók sem gefur leiðbeiningar um túlkun hugtaksins.`` --- Þetta er afar mikilvægt inn í þá umræðu sem hefur farið fram á þessum morgni á hv. Alþingi.

Ég vil líka, herra forseti, rifja það upp að Ísland á aðild að ýmsum mannréttindasamningum sem gerðir hafa verið bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Þessir samningar geta haft áhrif á réttarstöðu útlendinga, í þeim er að finna ákvæði sem mæla fyrir um tiltekin réttindi þeirra, og þeir þjóðréttarsamningar sem nefndir eru í frv. og koma til álita eru: Samningur um verndun mannréttinda og mannfrelsis, samningur um afnám alls kynþáttamisréttis, samningur um efnhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og samningur um réttindi barnsins, fyrir svo utan mannréttindasáttmála Evrópu sem við höfum oft vísað til.

Norðurlöndin hafa jafnframt með sér víðtækt samstarf og er skemmst að minnast að við höfum farið í gegnum umræðuna um Schengen á grundvelli þess að við höfum verið með sérstaka samvinnu varðandi vegabréf á Norðurlöndum. Við höfum getað ferðast innan þeirra landa án þess að sýna vegabréf og lögðum mjög mikla áherslu á að það ákvæði væri virt við aðild okkar að Schengen-samningnum. Þar er líka að finna ýmislegt sem lýtur að réttindum og varðar hin norrænu útmörk gagnvart útlendingum sem koma til Norðurlandanna.

Þetta er mjög mikilvægt að við höfum í huga. Við berum talsvert oft hingað inn ýmsa alþjóðasamninga og gerumst aðilar að þeim. Það er svo mjög mismunandi hversu hratt við fullgildum þá. Oft er mjög mikill mismunur í raun og veru á löggjöf á Íslandi og ákvæðum þeirra alþjóðasamninga sem við höfum undirgengist með aðild að þeim. Það á auðvitað að vera metnaðarmál okkar allra, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu, að gera löggjöf á Íslandi þannig úr garði að hún falli í meginatriðum að þeim alþjóðasamningum sem okkur hefur fundist svo mikilvægir að við ákveðum að gerast aðilar að þeim.

Þessu langaði mig að bæta við í umræðuna sem hefur verið á allan hátt mjög ágæt, herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því og hef átt viðræður um að þetta mál komist til nefndar til skoðunar. Um það hefur verið ágæt samvinna og um það fjallað áður en frv. kom á dagskrá og í tengslum við að málinu var frestað frá mánudagskvöldi og fram á þennan fimmtudagsmorgun. Mér fannst mjög þýðingarmikið að komið var til móts við óskir Samfylkingarinnar um að fresta því frv. sem hér hefur verið rætt eins lengi og unnt væri til að e.t.v. yrði tækifæri til að leggja fram frv. til laga um heildarlöggjöf í málefnum útlendinga. Það gekk þannig eftir að það frv. er á borðum okkar eins og hér hefur komið fram. Hins vegar mun vera vafamál hvort það verður til umfjöllunar í allshn. á sama tíma og það frv. sem er á dagskrá en a.m.k. lýsi ég því yfir að þingmenn Samfylkingarinnar munu skoða hvaða þættir það eru sem þarf að vera tryggt að séu í því frv. sem verður fjallað um í kjölfarið, í því frv. sem hefði átt að verða að lögum áður en við afgreiddum það ákvæði sem felst í frv. sem er á dagskrá.

En ég vil fyrir mitt leyti, herra forseti, þakka þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram.