Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:54:35 (2916)

2000-12-07 13:54:35# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Markmið húsnæðiskerfisins var að gera efnalitlu fólki kleift að komast í tryggt íbúðarhúsnæði sem uppfyllti lágmarkskröfur um búnað og rými. Þetta markmið náðist að mestu, m.a. með því að Byggingarsjóður verkamanna lánaði 80--90% af verði íbúða til 40--50 ára og útborgun kaupenda var aðeins 10%. Vextir voru niðurgreiddir og þess vegna lækkaði verð íbúða mjög verulega á lánstímanum. Sveitarfélög höfðu möguleika á að efla byggingu íbúðarhúsnæðis í sinni byggð með því að sækja um og fá framkvæmdaleyfi fyrir félagslegu eignar- og leiguhúsnæði og gátu með því stuðlað að betri búsetuskilyrðum en ella.

Á meðan skilyrðin voru eðlileg og ekki brostinn á sá flótti af landsbyggðinni sem nú er orðinn var þetta sveitarfélögum og íbúum þeirra hagfellt. Fólkið hafði tryggt og gott húsnæði og trygga innlausn þess ef það hugðist flytja og sveitarfélögin gátu haft á boðstólum húsnæði fyrir fólk sem hugðist flytja í byggðarlagið.

En þetta kerfi hrundi. Framreikniaðferðir leiddu til þess að verð þessara íbúða varð lægra en markaðsverð á svæðum þar sem eftirspurn var mikil eftir húsnæði, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það var hins vegar allt of hátt miðað við markaðsverð á landsbyggðinni. Óeðlilegt var að ríkið niðurgreiddi með þessum hætti lán til ákveðinna hópa en ekki til annarra lántakenda.

Nú hefur húsbréfakerfið tekið við og öll kaup fara fram á almennum markaði. Vextir eru allmiklu hærri en í félagslega kerfinu en á móti koma vaxtabætur sem jafna muninn. Fyrir efnalítið fólk er að auki til félagsleg lausn, sem sveitarfélögin sjá um að úthluta, sem eru viðbótarlánin. Með þeim geta lán frá Íbúðalánasjóði orðið allt að 90% eins og var í gamla kerfinu. Fólkið hefur nú fullan ráðstöfunarrétt á íbúðum sínum og er ekki bundið af innlausnum sveitarfélaganna. Með þessu kerfi minnka möguleikar sveitarfélaganna til þess að hafa áhrif á þróun í byggðinni en þegar á allt er litið er fyrirkomulagið sem nú er miklu eðlilegra.