Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 14:06:36 (2920)

2000-12-07 14:06:36# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér eru til umfjöllunar fjögur mál sem heyra undir menntmn. og eru flutt af hæstv. menntmrh. Ég mun þó fyrst og fremst fjalla um tvö þeirra, annars vegar frv. til þjóðminjalaga og hins vegar frv. til safnalaga, en við munum að sjálfsögðu fjalla nánar um þessi frv. í menntmn. Ég vil í byrjun fagna þeim orðum hæstv. ráðherra að þessi frumvörp séu ekki lögð fram með því fororði að engu megi breyta heldur sé treyst á að menntmn. fari vel yfir málin, fái upplýsingar og umsagnir víða að og reynt verði að bæta það sem bæta má. Það eru nokkur atriði, herra forseti, sem mikilvægt er að nefndin fari vandlega yfir.

Varðandi frv. til þjóðminjalaga virðist frv. ganga m.a. út á að fara örlítið aftur í farveg sem áður var og augljóslega er verið að fara leið til aukinnar miðstýrngar hvað varðar vald þjóðminjavarðar og er það mjög í líkingu við það sem var í þjóðminjalögum sem sett voru árið 1969. Mér finnst þó vanta rökstuðning fyrir því að þessi leið sé vænlegri en sú leið sem gilt hefur frá 1989 þegar fornleifanefnd var innleidd sem var óháð leyfisveitinganefnd, en við munum að sjálfsögðu fara betur yfir þetta í menntmn. og kanna allar hliðar málsins. Hins vegar er nauðsynlegt strax á þessu stigi að fram komi að ýmsir umsagnaraðilar sem getið er um í inngangi athugasemda við frv. hafa komið því á framfæri að frv. hafi ekki verið í þessari mynd þegar þær umsagnir voru samdar og þess vegna er augljóst mál að menntmn. mun senda þetta frv. aftur til þeirra aðila og fá nýjar umsagnir.

Herra forseti. Ég mun fyrst og fremst fjalla um frv. til safnalaga og ég fagna því að hæstv. umhvrh. er viðstödd vegna þess að ef við í almennu tali fjöllum um megininntak frv. til safnalaga er ekki annað að sjá en þar sé raunverulega hið besta mál á ferðinni. En það er ein veigamikil breyting sem því miður skortir verulega á að nægjanlegur rökstuðningur hafi komið fram við, þ.e. það sem segir í 5. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Náttúruminjasafn Íslands annast heimildasöfnun, kynningu og rannsóknir á íslenskri náttúru.``

Í máli hæstv. menntmrh. kom fram að í rauninni væri væntanlega eingöngu um sýningasafn að ræða og eingöngu um rannsóknir að ræða sem tengdust þeim sýningum. Nú verð ég að játa það, herra forseti, að ég er ekki sérfróður á þessu sviði, en ýmsir sérfræðingar hafa bent á að býsna vandfundin séu hin nákvæmu skil þarna á milli. Það gæti því reynst þrautin þyngri að skilja þarna nákvæmlega á milli og þess vegna er nauðsynlegt helst strax við 1. umr. að fram komi skýr rök fyrir því að nauðsynlegt sé að fara þessa leið því að þarna er auðvitað verið að aðskilja söfn frá því mikilvæga hlutverki sem Náttúrufræðistofnun hefur, en samkvæmt ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar er ekki annað að sjá en um 60--70% af starfsemi hennar falli undir safnastarfsemi. Það er því ljóst að ef þetta verður að raunveruleika og ekki verður betur gerð grein fyrir því sem þarna er á ferðinni, þá er a.m.k. verið að kljúfa þessa stofnun upp og er í raun vandséð hvernig að því verður staðið og nauðsynlegt er að hæstv. umhvrh. skýri nákvæmlega í umræðunni hver ástæðan er fyrir því að hæstv. ráðherra hefur samþykkt að þessi leið verði farin því að hér er um að ræða eina af öflugri stofnunum sem heyra undir umhvrn.

Hins vegar ber að fagna því ef þetta er leið til þess að efla safnið sem hefur því miður búið við mjög þröngan kost og er nú vistað í að mér skilst tveimur herbergjum í iðnaðarhúsnæði við Hlemm og er það þjóðinni til vansa og hafa þó verið gerðar ýmsar tilraunir til að bæta úr þeim húsnæðisvanda sem því miður hefur hrjáð safnið nær alla tíð ef undan eru skildir nokkrir áratugir meðan það var í hinu merka húsi sem nú heitir Þjóðmenningarhús, en það var fyrir þá miklu andlitslyftingu sem á því húsi hefur verið gerð í seinni tíð.

Herra forseti. Aðeins til þess að undirstrika hvílíkur vandi hefur í raun verið í þessu safni, þá langar mig, með leyfi forseta, að vitna í orð Benedikts Gröndals sem var umsjónarmaður safnsins árið 1894, þ.e. þegar safnið var fimm ára, en það var stofnað árið 1889. En Benedikt Gröndal segir svo, með leyfi forseta, árið 1894:

,,Hið helsta sem enn er að er húsnæðisleysi. Ég hundskammast mín í hvert sinn sem ég þarf að sýna útlendingum safnið, ekki vegna þess sjálfs heldur vegna húsakynnanna og alls fyrirkomulagsins. Hleypi maður nokkuð mörgum inn, þá er allt í veði. Þá er húsfyllir og troðningur innan um glös og glerskápa.``

Herra forseti. Mér skilst á forsvarsmönnum safnsins að enn í dag eigi þessi lýsing við og eru þó rúmlega 110 ár liðin frá því að safnið var stofnað.

Ég sagði áðan, herra forseti, að safnaþátturinn væri býsna stór í störfum Náttúrufræðistofnunar og ég ítreka enn að nauðsynlegt er að hæstv. ráðherra skýri það nákvæmlega við umræðuna hver ástæðan er fyrir því að talin er þörf á því að flytja þennan þátt Náttúrufræðistofnunar frá valdsviði hæstv. umhvrh. yfir á valdsvið hæstv. menntmrh. Hæstv. menntmrh. sagði það reyndar í umræðunni áðan að hann teldi nauðsynlegt að efla þetta safn. Hugsanlega er það skýringin að hæstv. menntmrh. treystir ekki hæstv. umhvrh. til að efla safnið og vill þess vegna að safnið verði undir menntmrh. og við það aukist líkurnar á að við þurfum ekki að skammast okkar miklu lengur fyrir safnið.

En örlítið til viðbótar varðandi Náttúrufræðistofnun og til upprifjunar vegna þess að hæstv. menntmrh. minntist aðeins á einn lið í 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, en þar er einmitt verið að fjalla um aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar. Ég vil, með leyfi forseta, lesa örfáa liði til viðbótar við það sem hæstv. menntmrh. nefndi áðan. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

,,Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:

a. að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,

b. að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru.``

Síðan kemur í d-lið það sem hæstv. menntmrh. las, ,,að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings.`` Að því er mér virtist á máli hæstv. ráðherra virðist mér það vera þessi töluliður sem verið er að ræða um.

[14:15]

Auðvitað þarf að fá það miklu skýrar fram vegna þess að þegar menn voru að setja lögin um Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu virðist mönnum hafa verið ljóst að býsna vandmeðfarið væri að aðskilja þessa þætti í safnastarfinu. Eins og ég sagði áðan virðist á ársskýrslum stofnunarinnar að safnaþátturinn sé um 60--70% af starfsemi safnsins og þess vegna er verið að boða með þessu frv. algjöran uppskurð á starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Enn kalla ég eftir rökum fyrir þeim mikla uppskurði.

Herra forseti. Það er eitt til viðbótar í þessu frv. sem bendir að vísu til þess að vinnubrögð hafi ekki verið hin nákvæmustu vegna þess að í 7. gr. frv. til safnalaga segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að lána gripi eða verk úr söfnum til sýningar, en þó eigi til útlanda nema með samþykki menntmrh. að fenginni umsögn safnaráðs og þjóðminjavarðar ef um er að ræða gripi sem falla undir ákvæði laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa.``

Herra forseti. Einnig er nauðsynlegt að vitna í frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa því að þar segir í 2. gr., 12. lið, með leyfi forseta, og er þá verið að telja upp það sem hér undir fellur:

,,Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök ...``

Hér er komið inn á gripi sem eru í raun og veru undir Náttúrufræðistofnun vegna þess að í lögum um Náttúrufræðistofnun er fjallað sérstaklega um þennan þátt. Ekki er síður athyglisvert að skoða síðan 7. gr. laga um frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa vegna þess að til þess er ætlast við ákveðnar aðstæður að haft sé samband við sérstakar stofnanir þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Í 7. gr. segir m.a. með leyfi forseta:

,,Þar skal m.a. kalla til forstöðumann Listasafns Íslands um myndlistarverk, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi um handrit, Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns um bækur og handrit og Þjóðskjalasafns Íslands um skjöl.``

Herra forseti. Það er alveg greinilegt að Náttúrufræðistofnun á ekki að fjalla um það sem ég nefndi áðan þrátt fyrir að Náttúruminjasafnið sé komið undir þessi lög. Þetta finnst mér benda til þess að það þurfi að vanda til verka og menntmn. þurfi því að kalla eftir umsögnum mjög víða og vanda sig við verk sitt vegna þess að þarna eru greinilega lausir endar sem þarf að hnýta betur. Ég lýsi eftir betri rökum en hafa komið fram fyrir því sem hér er ætlunin, að skera frá Náttúrufræðistofnun Íslands stærsta þáttinn, og hvers vegna nauðsynlegt er að hæstv. menntmrh. verði æðstur maður á þessu sviði. Er það vegna þeirrar sögu, sem ég lítillega rifjaði upp, að þrátt fyrir stofnun umhvrn. og þrátt fyrir að Náttúrufræðistofnun hafi verið sett á legg og hafi haft Náttúrugripasafn Íslands innan vébanda sinna hafi það ekki dugað til þess --- þ.e. stofnun umhvrn. --- að koma þessu safni í þá stöðu sem við teljum nauðsynlegt, það sé meginástæðan fyrir því að nú telji menn nauðsyn að færa þetta til menntmrn. og þess vegna sé m.a. þessari hugmynd hreyft í frv.? Og það sé sem sagt sameiginlegt álit hæstv. umhvrh. og hæstv. menntmrh. að hæstv. menntmrh. sjái um þennan þátt?