Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:18:43 (2929)

2000-12-07 15:18:43# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um rammalöggjöf um safnastarfsemi á Íslandi þar sem m.a. er tekið á Náttúrugripasafni Íslands. Meiningin með þessum breytingum er að efla Náttúrugripasafnið og gera það að höfuðsafni eins og Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands þannig að Náttúruminjasafnið yrði eitt af höfuðsöfnum í landinu og það þykir mér afar jákvæð og brýn breyting.

Eins og komið hefur fram í máli fjölmargra hv. þm. er ekki nógu vel búið að því safni og hefur aldrei verið. Það er í litlu húsnæði og er hálfmunaðarlaust. Á sínum tíma náðist næstum því að koma því í betra húsnæði. Þá var búið að gera samkomulag á milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að fara í talsverð fjárútlát við að búa safninu betri aðstöðu. Það samkomulag skilst mér að hafi strandað á hinu háa Alþingi í fjárln. þannig að ekki tókst í þeirri atrennu að búa betur að safninu, því miður. Þá stæði ég ekki í þessum sporum með þetta ágæta safn í eins litlu húsnæði og það er í. Margar nefndir hafa skoðað málefni safnsins og núna er ein að störfum við það. En safnið er hálfmunaðarlaust.

Árið 1992 þegar gerðar voru lagabreytingar á Alþingi var lagt fram frv. til breytinga á lögum, frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Þá voru gerðar þær breytingar að ákveðið var að það væri ekki lengur lögbundið verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands að byggja upp og reka náttúrusýningasafn. Það kemur fram, virðulegur forseti, í athugasemdum með frv. að uppbygging og rekstur náttúrusýningasafna verði ekki lengur lögbundið verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands heldur sérstakra félaga, e.t.v. sem sjálfseignarstofnana.

Það kemur líka fram í þessu sama frv. að í staðinn er létt lagakvöð af Náttúrufræðistofnun um að koma upp sýningasafni er veiti sem gleggst yfirlit um náttúru Íslands og sé opið almenningi.

Það er, virðulegur forseti, alveg ljóst að frá 1992 ber Náttúrufræðistofnun Íslands ekki neina lagalega ábyrgð á Náttúrugripasafninu, það er því eiginlega munaðarlaust í dag.

Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur stendur í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:

a. að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,

b. að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru.``

Einnig stendur í 4. gr. d-lið um hlutverk Náttúrufræðistofnunar ,,að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings.``

Vegna þessa tel ég mjög eðlilegt að gert verði ráð fyrir samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafni, í framtíðinni. Við undirbúning frv. til sérlaga um Náttúruminjasafn Íslands, sérlaga sem á að vinna að síðar eftir að þessi rammalöggjöf hefur verið samþykkt, er eðlilegt að lögð verði áhersla á að skilgreina tengsl Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins, enda er ljóst að Náttúrufræðistofnun Íslands mun verða vísindalegur grunnur að höfuðsafninu.

Ég vil einnig, virðulegur forseti, að gefnu tilefni --- og það tilefni er m.a. komið frá forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, Jóni Gunnari Ottóssyni, sem hefur bent á að í 5. gr. sé orðalag sem gefi til kynna að gera eigi einhverjar meiri háttar breytingar á Náttúrufræðistofnun Íslands, en það er nú ekki svo --- benda á að með þessu frv. er ekki stefnt að því að breyta neinu í lögbundinni starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og ekki stendur til að leggja af rannsóknir á sviði Náttúrufræðistofnunar Íslands. En í 5. gr. kemur fram að höfuðsafnið eigi að stunda rannsóknir á íslenskri náttúru og það má misskilja þetta þannig að ég tel eðlilegt að menn skoði það í nefndinni.

Einnig er ljóst að vegna ákvæða til bráðabirgða og vegna fyrri orða minna um að 1992 voru gerðar breytingar á lögunum um Náttúrufræðistofnun Íslands, þá er ekki að því leyti þörf á að breyta lögunum um Náttúrufræðistofnun Íslands til að aðgreina safnastarfsemi Náttúruminjasafnsins frá annarri starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna þess að sá aðskilnaður varð má segja árið 1992. Með lögunum 1992 var létt þeirri lagakvöð af Náttúrufræðistofnun Íslands að bera lagalega ábyrgð á Náttúrugripasafni Íslands. Hins vegar hefur það verið til húsa í sama húsnæði og Náttúrufræðistofnun Íslands og reksturinn verið í tengslum við Náttúrufræðistofnun. En það er ekki lagaleg skylda. Hún var tekin af 1992 þannig að segja má að Náttúrugripasafnið hafi verið munaðarlaust síðan.

Ég tel mjög brýnt að koma málum í betri farveg, skilgreina það nákvæmlega hvar Náttúrugripasafn eða Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn, eigi að eiga heima lagalega séð og hver eigi að bera ábyrgð á því.

Ég vil einnig benda sérstaklega á að einhvers misskilnings gætir í málinu finnst mér í heild. Hér erum við einungis að ræða rammalöggjöf, síðan verða sett sérstök lög um Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn. Það er alveg ljóst að umhvrn. mun verða með í vinnu við að setja þau sérlög þannig að það er alls ekki svo, eins og hér hefur verið gefið til kynna, að verið sé að ganga eitthvað á hlut umhvrn. í þessu máli, alls ekki. Við áttum aðild að þeirri nefnd sem var að smíða frv. að rammalöggjöf, þar áttum við fulltrúa, þannig að við höfum átt þátt í þessari vinnu og ég tel í heildina að eðlilegt sé að svona mikilvægt safn, sem ég tel að Náttúrugripasafnið sé og alla vega gæti orðið með því að styrkja það, heyri undir almenn safnalög í landinu en að það sé ekki slitið frá og heyri undir fagráðuneyti á því sviði eins og undir umhvrn. eða undirstofnanir þess. Ég held að því sé miklu betur komið fyrir undir almennum lögum um safnastarfsemi í landinu því það er ekki svo mikill munur á því að sýna náttúrugripi og sýna aðrar þjóðargersemar.

En ég ítreka að að sjálfsögðu verður Náttúrufræðistofnun Íslands með sína rannsóknastarfsemi bakhjarl í væntanlegu höfuðsafni vegna þeirrar starfsemi sem fer fram í Náttúrufræðistofnun Íslands.