Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:28:31 (2930)

2000-12-07 15:28:31# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. umhvrh. um að ekki er mikill munur á því að sýna náttúrugripi eða aðra safngripi. Þess vegna er það mjög víða um landið að byggðasöfn og náttúrugripasöfn eru saman.

Náttúrugripasafn Íslands, það sem við erum að tala um, er allt annars eðlis. Það er rannsóknarsafn. Það er ekki nema lítið brot af gripum þess til sýnis í núverandi safnrými og þó menn byggðu stórt hús ímynda ég mér að það yrði ekki nema hluti af því sem safnið hefur yfir að ráða sem yrði til sýnis. Hitt er vinnusafn fyrir vísindamenn. Ef á að færa þetta í sundur verður það ákaflega umhendis fyrir þá rannsóknarmenn að stunda rannsóknir sínar áfram.

Hæstv. umhvrh. svaraði engum af þeim spurningum sem ég kastaði til hennar áðan þannig að ég verð að endurtaka þær.

Í fyrsta lagi. Telur hæstv. umhvrh. að það sé í lagi frá sjónarhóli umhvrn. að það verði þjóðminjavörður sem í framtíðinni veiti heimild til útflutnings á sjaldgæfum náttúrugripum en ekki einhver úr hennar ranni?

Í öðru lagi, herra forseti, spurði ég hæstv. umhvrh.: Mun starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands breytast að einhverju leyti, og þá er ég að vísa til starfsmannahaldsins, mun einhver af núverandi starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands fara með safninu? Mun starfsmönnum eða vísindamönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands fækka? Það er það sem ég þarf að vita, herra forseti.

[15:30]

Ég verð jafnframt að segja að litlu verður Vöggur feginn þegar hæstv. ráðherra segir að umhvrn. muni koma að gerð sérlaga um Náttúruminjasafn Íslands. Það kemur fram í grg. á bls. 6, herra forseti. Þar er sagt að nauðsynlegt sé að tryggja aðild fulltrúa ráðuneytisins eða einhverra stofnana þess að slíkri lagasmíð.

Herra forseti. Auðvitað hefði einhver úr náttúrufræðigeiranum átt að veita slíku forstöðu. Málið er þess eðlis. Hér er um náttúrufræðilega gripi að ræða og auðvitað eiga náttúrufræðingar að fara þar með stjórn mála.