Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:30:44 (2931)

2000-12-07 15:30:44# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvort ásættanlegt sé að þjóðminjavörður þurfi að samþykkja flutning á náttúrugripum úr landi. Eins og ég skil lög um Náttúrufræðistofnun þarf hún að veita leyfi þegar flytja á náttúrugripi úr landi. Lögin eru frá árinu 1992 þannig að ég sé ekki að það muni í sjálfu sér breytast með þessari rammalöggjöf. Væntanlega verður þetta skoðað líka þegar sérlögin verða sett, í hvaða farveg sé eðlilegt að beina þessum málum.

Ég hef heldur ekki skilið frv. þannig að þjóðminjavörður eigi að vera yfirmaður Náttúruminjasafns Íslands, höfuðsafns, frekar en að hann eigi að vera yfirmaður eða forstöðumaður Listasafns Íslands. Það hlýtur að verða að líta á málið þannig að ráðnir verði sérstakir forstöðumenn yfir þessi söfn. Þau eru það stór og mikilvæg og á vegum þeirra fer fram það mikil sýningarstarfsemi að ég efast um að hægt sé að hafa einn forstöðumann yfir öllum þessum söfnum. Ég held að það hafi ekki verið meiningin.

Varðandi spurningu hv. þm. um hvort starfsmenn Náttúrufræðistofnunar eigi að flytjast með safninu þá get ég ekki séð að þessi rammalöggjöf feli það í sér. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fjölmarga starfsmenn sem eru önnum kafnir við rannsóknastörf en þeir hafa ekki stundað mikla sýningastarfsemi eins og þetta höfuðsafn mun aðallega sinna. Hér er verið að búa til löggjöf sem veitir svigrúm til að stórefla sýningastarfsemi með Náttúruminjasafni Íslands, höfuðsafni. Þessi lagarammi veitir okkur meiri möguleika á að fara í umfangsmeiri sýningar með nýju safni.