Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:32:58 (2932)

2000-12-07 15:32:58# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Þau skýra málið allverulega. Það liggur þá ljóst fyrir að hæstv. umhvrh. er ekki þeirrar skoðunar að samþykkt frv. til safnalaga leiði til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands tapi nokkru af sínu rannsóknaatgervi, þ.e. að hún tapi af einhverjum af vísindamönnum sínum. Einu mennirnir sem mögulega kynnu að færast til á þessu safni eru þá þeir sem tengjast sýningarhaldi. Öðruvísi gat ég ekki skilið orð hæstv. umhvrh. sem kinkar kolli til samþykkis.

Í öðru lagi segir hæstv. umhvrh. að 3. mgr. 15 gr. laga í III. kafla um Náttúrufræðistofnun Íslands muni ekki breytast. Hún sagði að þrátt fyrir að þessi fjögur frv. yrðu samþykkt þá yrði það áfram á valdi Náttúrufræðistofnunar Íslands að veita heimild ef náttúrugripir yrðu fluttir úr landi.

Þetta liggur fyrir og er ákaflega mikilvægt. Þá þarf nefndin auðvitað að koma til skjalanna með einhverjum hætti þegar kemur að umfjöllun um frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi, herra forseti. Þar segir í 12 tölulið 2. gr. að þjóðminjavörður veiti formlegt leyfi til að flytja úr landi safneintök eða söfn sem tengjast bergfræði, grasafræði eða dýrafræði hvers konar.

Þá tel ég, herra forseti, að það sem mest hefur verið í umræðunni, a.m.k. af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar, liggi ljóst fyrir og hæstv. umhvrh. hafi gefið okkur fullnægjandi svör.