Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:37:31 (2935)

2000-12-07 15:37:31# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Svo að við tökum af allan vafa vil ég, með leyfi forseta, lesa það sem segir m.a. í ákvæði til bráðabirgða. Hér segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 5. gr. þar sem lagt er til að sett verði á laggirnar Náttúruminjasafn Íslands er hafi stöðu höfuðsafns kemur það ekki til framkvæmda fyrr en endurskoðun er lokið á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, er miðar að því að aðgreina safnastarfsemi Náttúrufræðistofnunar frá öðrum skilgreindum verkefnum stofnunarinnar.``

Hér er fjallað um það, herra forseti, sem hæstv. ráðherra segir að hafi verið gert árið 1992. Það er ekki nokkur leið að skilja orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þessi hluti, ákvæði til bráðabirgða, sé gjörsamlega óþarfur. Hæstv. ráðherra staðfestir í raun það sem fram kom í umræðunni áðan, að því miður hafi ekki verið nægjanlega vel vandað til þegar þessara frv. áður en þau voru lögð fram.

Ég ítreka, herra forseti, spurninguna um 12. tölul. í 2. gr. varðandi flutning menningarverðmæta úr landi. Þar er einmitt tekið á því sama og í lögum um Náttúrufræðistofnun. Ég get ekki skilið orð hæstv. ráðherra á annan hátt en að sá töluliður sé einnig óþarfur.