Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:40:05 (2937)

2000-12-07 15:40:05# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér virðist það enn einu sinni koma í ljós að Alþingi hafi sett lög á handahlaupum sem reynast svo meingölluð. Mér finnst við oft lenda í því að þurfa á endanum að lúta ákúrum frá Eftirlitsstofnun EFTA, eins og fram kemur í frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og skil menningarverðmæta til annarra landa. Við höfum lent í því oftar en einu sinni að fá ákúrur frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, í þessum málaflokki eins og mörgum öðrum. Hv. Alþingi lendir oft í því að setja lög á handahlaupum og síðan þarf aftur skömmu síðar að leggja sömu vinnu í sama málaflokk. Þess er skemmst að minnast að Ísland hefur lent í næstneðsta sæti á lista Eftirlitsstofnunar EFTA yfir frammistöðu landanna við að lögtaka Evróputilskipanir. Einungis Grikkir eru neðar en við á listanum.

Það verður að segjast eins og er að það er mikil bragarbót að þessum frumvörpum. Ég hef ekki annað en gott um þau að segja en vil hafa þennan formála vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við þurfum að leiðrétta lög frá Alþingi þar sem þess hafi ekki verið gætt að framfylgja Evróputilskipununum. Við skulum gera ráð fyrir því að þessi bragarbót nægi til að hækka Ísland á listanum yfir frammistöðu landanna við að lögtaka Evróputilskipanir.

Þá vil ég segja nokkur orð um frv. til laga um húsafriðun. Hér er lagt til að stofnuð verði ný sjálfstæð ríkisstofnun. Eða eins og segir í athugasemdum við lagafrv., með leyfi forseta:

,,Megintilgangur frumvarpsins er að gefa húsafriðun sérstöðu innan þjóðminjavörslunnar. Jafnframt er sjálfstæði yfirstjórnar þessa málaflokks aukið með því að gera húsafriðunarnefnd, sem nú er undirnefnd þjóðminjaráðs, að sjálfstæðri ríkisstofnun.``

Nú spyr ég hæstv. menntmrh. hvort ekki hefði verið hægt að finna virðulegra nafn á þessa nýju sjálfstæðu ríkisstofnun en húsafriðunarnefnd. Í framhaldi af því spyr ég hvort ekki hefði mátt finna efnismeiri eða öflugri titil á embættismanninn sem gert er ráð fyrir að veiti húsafriðunarnefnd forstöðu sem í frv. er nefndur forstöðumaður húsafriðunarnefndar. Mér finnst þetta hljóma fremur léttvægt, herra forseti, bæði nafn stofnunarinnar sem slíkrar og sömuleiðis embættistitillinn. Hér er um að ræða yfirmann sjálfstæðrar ríkisstofnunar. Þetta mál er þess eðlis að mér finnst að stundum þurfi að gá að því að hugmyndasmiðja sé í gangi þegar búa þarf til nöfn á nýjar ríkisstofnanir. Það væri hægt að virkja sköpunarmáttinn hjá fólki til þess að við sitjum ekki uppi með léttvæga og fremur flata titla á fólki eða stofnunum. Mig hefði langað að finna rismeiri heiti.

[15:45]

Varðandi frv. til húsafriðunarlaga má náttúrlega segja að tímabært frv. sé á ferðinni. Að mínu mati er sjálfsagt mál að skilja húsafriðunina frá Þjóðminjasafni á þennan hátt. Mér finnst þetta frv. gera það við fyrstu yfirferð á faglegan hátt og ég fagna því en hef spurningu varðandi eitt atriði til viðbótar í þessu frv. Í frv. segir að þeir starfsmenn sem eru fastráðnir hjá Þjóðminjasafni Íslands og starfi á vegum húsafriðunarnefndar við gildistöku þessara laga skuli halda öllum starfsréttindum sínum óbreyttum, þar með töldum réttindum sem byggjast á starfs- og þjónustualdri. Breytingar á stöðu starfsmanns sem lög þessi hafa í för með sér fela því ekki í sér að staða sé lögð niður í skilningi starfsmannalaga, nr. 70 frá 1996. Ég hefði þurft frekari skýringu á því sem hér kemur fram, hvort verið er að fjalla um að starfsmannafjöldinn, sem starfar nú að húsafriðun á vegum Þjóðminjasafns, haldist óbreyttur og ekki verði hróflað við þeim sem hafa haft þennan málaflokk með höndum undir hatti Þjóðminjasafnsins hingað til.

Mig langar til að gera, herra forseti, athugasemd við 3. tölul. í athugasemdum við lagafrv. þetta en í honum segir, með leyfi forseta: ,,Að settum sérlögum um húsafriðun væri hægara að láta fara fram sérstaka stefnumótun og endurskoðun laga um húsafriðun, enda þyrfti þá ekki að hreyfa við gildandi fyrirkomulagi laga um þjóðminjar. Í frv. er gert ráð fyrir að samsetning húsafriðunarnefndar sé önnur en hún er nú.``

Herra forseti. Mig langar til að það komi fram að ég tel sjálfsagt að slík stefnumótun fari fram varðandi málaflokkinn húsafriðun. Ég tel að hér hefði hæstv. ráðherra átt að taka af öll tvímæli um hvort hann telji ekki að hér sé það mikilvægt mál á ferðinni að það þurfi að kveða þannig fastar að orði að það væri tryggt að sérstök stefnumótun fari fram í þessum málaflokki.

Einnig langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um niðurlag í athugasemdum við lagafrv. þar sem sagt er eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Vakin er athygli á þeirri nýbreytni að tekinn er af allur vafi á að menntmrh. geti fellt niður friðun án tillits til þess hvort hún er vegna aldurs eða vegna sérstakra friðunaraðgerða.`` Nokkur vafi hefur þótt leika á þessu í gildandi lögum. Hæstv. ráðherra gerði áðan grein fyrir þessu í framsögu sinni um málið en mig langar til að vita hvort það hafi valdið vanda hingað til og þá í hvaða tilvikum vafi hafi þótt leika á þessu í gildandi lögum.

Varðandi umsögn fjmrn., fjárlagaskrifstofu, um frv. þetta kemur fram að í fjárlagafrv. ársins 2001 sé áætlað 25,5 millj. kr. ríkisframlag til húsafriðunarsjóðs sem húsafriðunarnefnd úthlutar úr. Að auki er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái 150 kr. á hvern íbúa í landinu, eða 42 millj. kr. úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samkvæmt ríkisreikningi 1999 námu útgjöld sjóðsins alls 103 millj. kr. og þar af námu rekstrargjöld rúmum 29 millj. Fjmrn. segir að það sé mat þess að þessar breytingar gefi ekki tilefni til aukinna útgjalda ríkissjóðs en ég sé ekki betur, herra forseti, á upplýsingum sem koma fram í umsögninni en minna fjármagn verði til ráðstöfunar fyrir húsafriðun í landinu en verið hefur hingað til. Ég tel því að hér þurfi að gæta verulega vel að að málaflokkurinn sé ekki að missa spón úr aski sínum.

Eitt vil ég nefna um þennan lagabálk og það er staða Þjóðmenningarhúss með tilliti til væntanlegra laga. Hvernig er gert ráð fyrir að tengslum Þjóðmenningarhúss og Þjóðminjasafns verði háttað? Ekki er að sjá í þessum frv. að gert sé ráð fyrir neinum sérstökum tengslum en mér sýnist að þörf hefði verið á því og væri kannski þörf á að ræða líka í hv. menntmn. hvernig Þjóðmenningarhúsið getur komið að þeim málefnum sem eru til umfjöllunar. Mér sýnist ljóst að slíkt þurfi á einhvern hátt að gerast.