Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:03:59 (2939)

2000-12-07 16:03:59# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó ég hafi að mörgu leyti talað jákvætt um þessi frumvörp vegna þess að mér finnst þau vera til bóta að mjög mörgu leyti er ljóst að vegna breytinga sem urðu á frv. á síðasta stigi, eftir að búið var að senda þau til umsagnar fagmanna, er mikið ósætti, sérstaklega meðal stéttar fornleifafræðinga varðandi það að horfið var frá því að hafa fornleifavörsluna í sérstakri stofnun sem þó heyrði undir embætti þjóðminjavarðar í samræmi við þróunina á öðrum Norðurlöndum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra. Ef rannsókn sú sem fer fram í nefndinni milli umræðna leiðir til þess að nefndinni þyki fýsilegt að ráðleggja að frv. verði breytt aftur í fyrra horf, kemur það þá að hans dómi til greina? Nú vil ég ekkert segja um þetta vegna þess að ég hef ekki farið mjög nákvæmlega ofan í þessi mál, en kemur það til greina ef rannsókn nefndarinnar leiðir til þess að nefndinni þyki það fýsilegt?

Það er annað varðandi það sem hann sagði um afstöðu okkar hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur til útboða. Þar er smávegis misskilningur hvað mig varðar alla vega. Ég tel alls ekki að útboð komi ekki til greina. En ég tel að í flestum tilfellum eigi að fela rannsóknir færustu aðilum og það eigi ekki að bjóða uppgröft þannig út að hann verði falinn lægstbjóðanda.