Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:06:11 (2940)

2000-12-07 16:06:11# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg þessi frumvörp fram að vel ígrunduðu máli í ljósi umræðna sem hafa farið fram og skoðanaskipta sem orðið hafa á þessum vettvangi. Ég er í sjálfu sér ekki tilbúinn til þess að lýsa því hér yfir að ég fallist á að frumvörpunum verði gjörbylt. En að sjálfsögðu er ég, eins og ég sagði í inngangsræðu minni, ekki að leggja þessi frumvörp fram og segja að þau séu alsköpuð. Það væri náttúrlega fráleitt af minni hálfu að leggja þau þannig fram fyrir hv. þm.

Eins og ráðuneytið og starfsmenn þess fóru mjög ítarlega yfir þau sjónarmið sem fram komu og komust að sinni niðurstöðu með þeim tillögum sem hér liggja fyrir þá mælist ég til þess við hv. þm. að þeir taki sér tíma til þess að skoða rök bæði með og á móti. Síðan munum við ræða það þegar nefndin hefur fengið sínar umsagnir og sjá hver stefnan verður í hv. nefnd.