Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:09:41 (2943)

2000-12-07 16:09:41# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er rætt um. Ég er talsmaður þess að við aukum sem mest sveigjanleika og aðgang þeirra sem koma að fornleifarannsóknum á Íslandi. Ég held að hæstv. menntmrh. segi það allt rétt að við erum að eignast hér á landi fornleifafræðinga sem ekki eru aðeins innan opinberra stofnana heldur á einkamarkaði. Ég styð því viðhorf hæstv. ráðherra að öllu leyti.

Það kom mér á óvart þegar ég komst að því að Ísland er mun ríkara af fornleifum sem ókannaðar eru en þau lönd sem eru í nágrenni við okkur og að einmitt þeir einkaaðilar sem eru núna að láta til sín taka á þessu sviði líta með áhugasömum augum til þeirra verkefna sem hér eru. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé tryggt að slíkir aðilar, hvort sem þeir eru hjá opinberum stofnunum eða einkaðailar, eigi tryggt að geta hleypt að jafnframt erlendum aðilum sem ég tel að sé mikill fengur að fá til að auðga vísindastarf okkar, þ.e. annars vegar þetta og hins vegar hitt, hvort ekki sé jafnhliða tryggt að eftirlit sem nauðsynlegt er að hafa með útboðsverkum eða verkum á einkamarkaði sé tryggt með þessum lögum og miðstýring á slíku í höndum ábyrgra aðila, ef við teljum að þá eigi fyrst og fremst að flokka innan hefðbundinna ríkisstofnana.