Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:15:18 (2946)

2000-12-07 16:15:18# 126. lþ. 43.7 fundur 241. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fylgifrv. með félagsþjónustufrv. sem fór til nefndar fyrir tíu dögum eða hálfum mánuði. Frumvarpið er afleiðing þess að málefni fatlaðra flytjast til sveitarfélaganna eða fyrirhugað er að flytja þau til sveitarfélaganna en Greiningarstöðin er starfsemi sem þjónar landinu öllu og þar af leiðandi er eðlilegt að hún sé áfram hjá ríkinu.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði 17. mars 1999, með vísan til bráðabirgðaákvæðis laga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 161/1996. Í því er kveðið á um að sett skuli ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taki til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt núgildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að sams konar breyting verði á starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins var kveðið á um að sett skyldu sérstök lög um stofnunina.

Nefndin sem samdi frumvarpið hafði að sjálfsögðu til hliðsjónar vinnu nefndarinnar sem samdi félagsþjónustufrv.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hóf starfsemi 1. janúar 1986 skv. 16. gr. laga um mál efni fatlaðra, nr. 41/1983, og tók þá við starfi athugunardeildarinnar í Kjarvalshúsi. Í lögunum var ítarleg skilgreining á hlutverki stöðvarinnar, en það hefur haldist að mestu óbreytt við endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra.

Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur frá upphafi þjónað öllu landinu. Hátt á annað hundrað börnum og ungmennum er vísað þangað til greiningar á hverju ári, en auk þess hefur stofnunin árlega eftirfylgd með um 300 börnum og ungmennum. Stöðugildi við Greiningar- og ráðgjafarstöðina eru nú rúmlega 30, þar af nokkur hlutastörf, en alls vinna tæplega 40 manns við stofnunina með sérþekkingu á ýmsum sviðum fatlana. Má þar nefna lækna, sálfræðinga, talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, félagsráðgjafa, leikskólakennara o.fl.

Innra skipulag Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar var endurskoðað árið 1997. Þá var sérhæfing innan stöðvarinnar efld og skilvirkni þannig bætt, svo og stuðningur við þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem ráðgjöf við leikskóla og aðrar stofnanir þar sem fatlaðir dveljast. Var starfseminni því skipt í fötlunarsvið í stað starfsdeilda einstakra faggreina eins og áður. Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá breytingunum hefur helstu markmiðum verið náð og fengist hefur betri yfirsýn yfir þá hópa fatlaðra sem í hlut eiga. Þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hefur orðið skilvirkari, sveigjanlegri og stuðlað að árangursríkara samstarfi við aðra þjónustuaðila.

Við samningu frumvarpsins hefur verið leitast við að staðfesta og lögbinda þá starfshætti sem hafa verið þróaðir í starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar. Starfsemi stofnunarinnar er löguð að breyttri skipan þjónustu við fatlaða samkvæmt frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Jafnframt eru skilgreind samskipti við þá sem sinna annarri þjónustu sveitarfélaga, svo sem sérfræðiþjónustu sem rekin er af sveitarfélögum samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 78/1994, og lögum um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið feli í sér meiri umsvif Greiningarstöðvarinnar, en lögð áhersla á að efla hlutverk hennar á sviði rannsókna, fræðslu og þekkingaröflunar, auk greiningar- og ráðgjafarstarfsemi hennar.

Frumvarp þetta kom fyrir Alþingi í fyrra og er endurflutt í nokkuð breyttri mynd, þ.e. í nokkuð annarri uppsetningu en þá var en að efni til lítið breytt, en þó tekið tillit til nokkurra athugasemda sem bárust þegar frv. var sent til umsagnar.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að frv. verði sent til hv. félmn. til frekari athugunar.