Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:32:21 (2949)

2000-12-07 16:32:21# 126. lþ. 43.7 fundur 241. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ekki skal lagt á það mat hér hvort fleiri börn greinast nú með einhverfu og skyldar raskanir, þ.e. hvort það sé að aukast eða hvort ástæðuna megi rekja til meiri þekkingar sem gerir það að verkum að þessi skaði, eða hvernig við eigum að orða það, þessi sjúkdómur greinist fyrr, þ.e. að þekkingin sé nú meiri þannig að það sem seint hefur komið fram og veldur því óhemjuvanda og sársauka greinist núna á réttum tíma og því unnt að gera hið besta úr málinu. Það er ekki fyrir leikmenn að taka afstöðu til þess.

Herra forseti. Ég hlýt þó að nefna að verið er að flytja málaflokk fatlaðra yfir í umsjá sveitarfélaga ef það gengur eftir sem áform eru uppi um og félagsþjónustufrv. tekur meira eða minna mið af því. Þar með eiga sveitarfélögin að sinna í auknum mæli ýmsum þjónustuþáttum. Eftirfylgd á m.a. að vera í höndum sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og annarra fagmanna en Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins að sinna eftirfylgd og ráðgjöf einstaklinga með óvenjuflóknar eða sjaldgæfar fatlanir.

Ég vil sérstaklega að það komi fram, herra forseti, að ég er svolítið áhyggjufull út af þessu orðalagi. Kannski er þarna verið að þrengja þann stakk sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin býr við á sama tíma og umsvif eru að verða meiri hjá stöðinni með því að fleiri greinast. En ég ber mesta traust til Stefáns Hreiðarssonar og geri mér grein fyrir því að hann hefur mikla þekkingu á málefnum stöðvarinnar.