Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:40:27 (2953)

2000-12-07 16:40:27# 126. lþ. 43.8 fundur 240. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# (atvinnumál fatlaðra) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hið sama er um þetta mál að segja og frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöðina, að þetta er fylgifrumvarp með frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það var einnig lagt fram í fyrravor og aflað umsagna og farið yfir frv. með tillit til þess og því hnikað nokkuð til til að koma til móts við athugasemdir sem bárust. Það er lagt til í félagsþjónustufrv. að málefni fatlaðra verði færð til sveitarfélaga, þó að undanskildum ákveðnum málaflokkum, þar á meðal atvinnumálum fatlaðra sem lagt er til að færist til Vinnumálastofnunar. Sá flutningur kallar á breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

Í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eru tilgreind rök fyrir því að hin eiginlegu atvinnumál fatlaðra flokkist ekki undir félagsþjónustu heldur verði skipað með atvinnumálum annarra. Samrýmist það blöndun fatlaðra og ófatlaðra sem verið hefur baráttumál hagsmunasamtaka fatlaðra um langt skeið og séð hefur æ meiri stað í löggjöf og framkvæmd. Með því að fella úr gildi sérlög um málefni fatlaðra og fella þann málaflokk inn í almenna félagsmálalöggjöf má segja að stigið sé lokaskref í blöndun fatlaðra og ófatlaðra á vettvangi félagsmálalaga. Samfara væntanlegum lagabreytingum liggur beint við að atvinnumál fatlaðra færist til Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana.

Þjónusta við fatlaða sem nær til starfsráðgjafar, atvinnuleitar, vinnumiðlunar og annarrar almennrar aðstoðar telst tvímælalaust til viðfangsefna Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana að óbreyttum lögum. Frumvarp þetta fjallar því ekki um þá aðstoð.

Nauðsynlegt er að fyrir liggi skýr skilgreining á því hvað teljist til atvinnumála fatlaðra og hvað falli undir félagsþjónustu sveitarfélaga. Með hliðsjón af efni laga um vinnumarkaðsaðgerðir og í því skyni að atvinnumál fatlaðra falli sem best að þeim, svo og með það í huga að koma í veg fyrir vafaatriði og ,,grá svæði``, er lagt til að umrædd skil komi fram í því hvort greidd séu laun samkvæmt kjarasamningi. Það þýðir að gerð er krafa um vinnuframlag einstaklinganna og er svæðisvinnumiðlun ætlað að meta vinnufærni þeirra. Atvinna fatlaðra í framangreindum skilningi sem unnin er fyrir samningsbundin laun verði þannig felld undir lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Það þýðir að undir lögin fellur tvenns kona þjónusta, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins. Annars vegar er um að ræða verndaða vinnu, á vernduðum vinnustöðum eða í dagvist sveitarfélaga, þar sem gerð er krafa um vinnuframlag og laun eru samkvæmt kjarasamningum. Hins vegar er stuðningur við fatlaða sem vinna á almennum vinnumarkaði við störf sem launuð eru samkvæmt kjarasamningi.

Önnur atriði sem nú flokkast sem atvinnumál fatlaðra samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og reglugerð um atvinnumál fatlaðra verði á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga. Er þar annars vegar átt við iðju og þjálfun sem fari fram í dagvist á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga, en hins vegar aðstoð á vegum dagvistar sveitarfélaga við mikið fatlað fólk sem starfar á almennum vinnumarkaði. Vísast um þessi atriði til athugasemda við 33. gr. frumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hugtakið fötlun er í frumvarpi þessu notað í sömu merkingu og gert hefur verið í lögum um málefni fatlaðra og gert er í frumvarpi til laga um réttindagæslu fatlaðra sem verður rætt hér vonandi eftir skamma stund. Um þetta efni vísast einnig til athugasemda við frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þetta frv. tekur til liðveislu fatlaðra á almennum vinnumarkaði, enda vinni fatlaðir þar á samningsbundnum launum. Það tekur til verndaðrar vinnu, fyrir fatlaða eða aðra þá sem ekki geta unnið á almennum vinnumarkaði, enda séu laun samkvæmt kjarasamningi, vinnu á vernduðum vinnustöðum, vinnu í verndaðri vinnuaðstöðu á almennum vinnumarkaði og verndaðrar vinnu innan dagvistar félagsþjónustu sveitarfélaga.

[16:45]

Þegar fatlaðir eiga í hlut skal fyrst litið til vinnu á almennum vinnumarkaði með aðstoð, áður en vernduð vinna kemur til greina. Reynslan sýnir að ef rétt er á haldið og fatlaðir fá vinnu við hæfi og nauðsynlega aðstoð, einkum í upphafi starfs, geta þeir innt af hendi margvísleg störf á vinnumarkaði. Er ekki talinn vafi á að sú leið er fötluðum mikilvæg til þátttöku í samfélaginu og að það sé ódýrara fyrir þjóðfélagið þegar fram í sækir en störf í verndaðri vinnu.

Vinnumálastofnun er ætlað að gera samninga um verndaða vinnu við rekstraraðila verndaðra vinnustaða en svæðisvinnumiðlunum að aðstoða einstaklinga við að fá verndaða vinnu.

Um leið og lagt er til að á svæðisvinnumiðlunum hvíli sú skylda að aðstoða einstaklinga við að fá verndaða vinnu opnast tækifæri til að bjóða fleiri en fötluðum slíka vinnu. Ætla má að það geti hentað þeim sem af ýmsum ástæðum geta ekki unnið á almennum vinnumarkaði. Er það Vinnumálastofnunar eða svæðisvinnumiðlunar eftir atvikum að meta þetta atriði. Verður það að teljast umtalsverður kostur að Vinnumálastofnun bætist nýtt úrræði til aðstoðar við þá sem af ýmsum ástæðum hafa ekki fundið sig í störfum á almennum vinnumarkaði en geta nýtt starfskrafta sína í vernduðu umhverfi. Því þykir ekki rétt að takmarka möguleika á verndaðri vinnu eingöngu við þá sem eru skilgreindir fatlaðir.

Tekið skal fram að þegar málaflokkurinn verður færður til Vinnumálastofnunar er gert ráð fyrir að þangað verði ráðnir starfsmenn til að sinna honum. Lögð er áhersla á að sú sérþekking sem svæðisskrifstofur málefna fatlaðra hafa á sviði atvinnumála fatlaðra glatist ekki, heldur skili sér til Vinnumálastofnunar. Er þetta að sínu leyti sams konar áhersla og fram kemur við yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ég geri það að tillögu minni að sjálfsögðu að frv. gangi til hv. félmn. til skoðunar að lokinni þessari umræðu í dag.