Réttindagæsla fatlaðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 16:59:37 (2956)

2000-12-07 16:59:37# 126. lþ. 43.9 fundur 331. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hið sama gildir um þetta mál og hin tvö sem við höfum verið að ræða að þetta er fylgifrv. með félagsþjónustufrv. Það var sent til umsagnar í fyrravetur eða fyrravor, umsagnir bárust en leiddu ekki til neinna breytinga á frv. Það er því flutt í sömu mynd og það var flutt í fyrra.

[17:00]

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt á það ríka áherslu að um leið og málefni fatlaðra verði færð til sveitarfélaga og samofin almennri löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga sé brýnt að taka sérstaklega á réttindagæslu þessa hóps. Það hlutverk eigi að vera í höndum ríkisins sem sé best fallið til að hafa eftirlit með framkvæmd félagsþjónustu hjá sveitarfélögum. Um leið og sveitarfélög taki við þjónustu við fatlaða, sem ríkið tryggir þeim nú samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, sé eðlilegt að á vegum ríkisins sé haldið uppi öflugu réttindagæslu kerfi fatlaðra. Bent er á hversu viðkvæmur málaflokkurinn er og því sé skilyrði fyrir því að vel takist til um þjónustu við fatlaða hjá sveitarfélögum að rekin sé sérstök réttindagæsla fatlaðra. Þótt Landssamtökin Þroskahjálp séu eindregið þeirrar skoðunar að það sé framför að fatlaðir heyri nú undir almenna félagsmálalöggjöf telji samtökin þörf á sérstakri réttindagæslu til að tryggja að réttindi fatlaðra séu virt. Yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga réttlæti þannig fyllilega að hvikað sé frá baráttumáli hagsmunasamtaka fatlaðra um að blöndun fatlaðra og ófatlaðra komi fram í löggjöf og enn um sinn a.m.k. verði því að vera fyrir hendi sérlög um fatlaða þó að í öðrum og þrengri mæli sé en nú.

Í starfi nefndar sem samdi frumvarp þetta var fjallað um þá leið að hagsmunasamtök fatlaðra tækju að sér að annast réttindagæslu þeirra gegn greiðslu frá ríkinu samkvæmt þjónustusamningi. Rök fyrir þeirri leið voru þau að meginhlutverk hagsmunasamtaka fatlaðra sé að þrýsta á stjórnvöld um bætta þjónustu við skjólstæðinga sína. Verkefni sérstakrar réttindagæslu fatlaðra væri því náskylt meginverkefni hagsmunasamtaka fatlaðra. Fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðra í nefndinni töldu aftur á móti að ekki væri tímabært að samtökin tækju slíkt verkefni að sér. Þessu veigamikla verkefni væri við núverandi aðstæður best borgið hjá ríkinu.

Til að koma til móts við sjónarmið Þroskahjálpar er lagt til að komið verði á fót sérstöku réttindagæslukerfi með réttindagæslumanni og trúnaðarmönnum. Jafnframt féllst nefndin á það sjónarmið Þroskahjálpar að úr því talið er að setja þurfi í lög sérákvæði um réttindagæslu fatlaðra, þrátt fyrir ákvæði í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem leggur í því efni ríkar skyldur á félagsmálanefnd, eigi málaflokkurinn heima í sérlögum, enda vandséð hvernig koma megi svo sértæku efni fyrir í lögum með öðrum hætti.

Lögfesting á sérstökum réttindagæslumanni fatlaðra og trúnaðarmönnum í hverju kjördæmi er í undirstöðuatriðum ekki nýmæli, heldur framhald á verksviði trúnaðarmanns fatlaðra sem lögfest var í fyrsta sinn með lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, sbr. 37. gr. þeirra laga. Trúnaðarmenn fatlaðra eru skipaðir af svæðisráði á hverju svæði. Um verkefni þeirra segir svo í lögunum: ,,Í því skyni að treysta réttindi fatlaðra einstaklinga á heimilum fatlaðra skv. 3.--6. tölul. 10. gr. á sviði einkalífs og meðferðar fjármuna þeirra skulu svæðisráð skipa sérstakan trúnaðarmann fatlaðra á hverju svæði.`` Hafa trúnaðarmenn fatlaðra verið skipaðir á öllum svæðum, samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Ítrekað skal að sérstök löggjöf um réttindagæslu fyrir fatlaða, sem taki við af trúnaðarmönnum fatlaðra tengist fyrst og fremst yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og réttlætist í raun af þeirri yfirfærslu. Samkvæmt því er meginverkefni réttindagæslumanns og trúnaðarmanna að fylgjast með því að fötluðum sé veitt lögbundin þjónusta samkvæmt lögum um félagsþjónustu og hvernig sú þjónusta er veitt, en einnig öðrum lögum sem tengjast með einum eða öðrum hætti félagsþjónustu, svo sem um heilbrigðismál, almannatryggingar, skólamál og atvinnumál. Bent skal á að félagsmálanefnd sveitarfélags er ætlað að gæta þess að lögbundin réttindi fólks séu virt.

Auk þeirrar einstaklingsbundnu réttindagæslu sem frumvarp þetta felur í sér er lagt til í ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að komið verði á annars konar réttindagæslu, eins konar eftirlitsnefnd með yfirfærslunni til sveitarfélaga. Nefnist sú nefnd samstarfsnefnd málefna fatlaðra og í henni sitji fulltrúar fjögurra ráðuneyta, þrír frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir frá hagsmunasamtökum fatlaðra. Skal samstarfsnefndin fylgjast með hvernig til tekst með yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga næstu fimm árin. Þörf á þeirri tegund réttindagæslu er talin tímabundin.

Með framangreindum tveimur leiðum, tímabundinni samstarfsnefnd málefna fatlaðra og sérstökum lögum um réttindagæslu fatlaðra, telur nefnd sú er samdi tvö hlutaðeigandi frumvörp að komið hafi verið til móts við kröfu löggjafans um að huga að réttindagæslu fatlaðra.

Ég legg til að þetta frv. verði eins og hin sent til hv. félmn. til skoðunar.