Réttindagæsla fatlaðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 17:22:06 (2958)

2000-12-07 17:22:06# 126. lþ. 43.9 fundur 331. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem upp til að lýsa stuðningi mínum við málið sem hér er til umfjöllunar, réttindagæslu fyrir fatlaða og skipan sérstakra trúnaðarmanna fyrir fatlaða. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því sem vikið er að í athugasemdum um 6. gr. um að vegalengdir í hinum nýju kjördæmum og jafnvel samgöngur innan svæða, t.d. á Vestfjörðum, geri það að verkum að ekki nægi að hafa einn trúnaðarmann í hverju kjördæmi. Þetta held ég að þurfi að taka sérstaklega til athugunar.

Ég tel að breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir séu til mikilla bóta. Ég mun styðja það. Ég vona að það fái góða og málefnalega meðferð í þinginu og lýsi yfir stuðningi Frjálslynda flokksins við þetta mál.