Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:03:19 (2965)

2000-12-07 18:03:19# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki tilefni til að hafa mörg orð um að þetta gjald, þessi nefskattur sem innheimtur er með tekjustofnum Framkvæmdasjóðs aldraðra, sé færður upp og fylgi verðlagsþróun úr því að þetta fyrirkomulag er við lýði og hefur verið býsna lengi að afla þannig fjár. Auðvitað má deila um þetta fyrirkomulag og nefskattar hafa kannski aldrei þótt sérstaklega góð tekjuöflunartæki, a.m.k. ekki ef þeim er beitt óhóflega. Að sjálfsögðu er eðlilegt að leitast sé við að halda verðgildi tekjustofnsins og sannanlega er þörfin næg fyrir þetta fé. Hitt er lakara þegar dregst að gera slíkar leiðréttingar ár frá ári og þörf safnast upp þannig að hækkunin verður umtalsverð þegar í hana er ráðist eins og hér virðist verða raunin á. Þetta er orðin meiri upphæð en þurft hefði að vera ef þetta hefði verið gert með reglubundnu millibili.

Fram hefur komið og er vitnað um það í greinargerð frv. að mikil þörf er fyrir uppbyggingu í málefnum aldraðra í raun og veru á öllum sviðum þeirrar þjónustu, vistunar- og hjúkrunarrými, ýmiss konar þjónustu, dagvistun og öðru slíku. Sú þörf er bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst hér þar sem fólkinu fjölgar en hún er líka til staðar víða í byggðum landsins, m.a. vegna þess að þó að íbúum fari fækkandi eða þeim fjölgi ekki á mörgum svæðum er það engu að síður því miður staðreynd að meðalaldur er víða mjög hár og ekki síst við þær aðstæður. Þá flytur kannski fólk af yngri árgöngum burtu og eftir situr í byggðarlögunum fólk með tiltölulega háan meðalaldur og þörfin einmitt hlutfallslega meiri en íbúatalan bendir til fyrir þjónustu, og ekki síst vistun fyrir lasburða og sjúkt aldrað fólk.

Það er líka þannig, herra forseti, að það er mikilvægt atvinnu-, byggða- og mannréttindaatriði að þessari þörf sé hægt að mæta á heimavettvangi á hverjum stað. Ég þekki fátt ömurlegra en að aldrað fólki þurfi að flytjast hálfgerðum nauðungarflutningum um langan veg vegna þess að ekki er kostur á úrræði fyrir það í heimabyggð sinni. Það er að mínu mati ekki sístur hluti af mannréttindum fólks að fá að eyða ævikvöldi sínu á heimaslóðum í nágrenni við ættingja sína eða það byggðarlag sem hefur fóstrað menn í gegnum lífið. Sem betur fer er það víða þannig að þessi þjónusta er fyrir hendi en víða er þörf fyrir að bæta þar um. Ekki síst er það oft þannig að þörf myndast fyrir hjúkrunarrými af eðlilegum ástæðum eftir því sem meðalaldurinn hækkar á dvalarheimilum. Þetta þekkja menn og þarf ekki að fjölyrða um en ég leyfi mér að nefna þetta til sögunnar vegna þess að rökstuðningur fyrir hækkuninni og sú þörf sem tíunduð er af hálfu þeirra sem hafa samið greinargerðina, sem er hugsanlegt að sé einhver annar en hæstv. heilbrrh., þó veit ég ekki hvernig verklagið er í ráðuneytinu, kannski semur hæstv. ráðherra sjálf allar greinargerðir en e.t.v. fær hún til þess einhverja aðstoð frá samstarfsfólki sínu. Í undantekningartilvikum kann það að vera að ráðherra komist ekki yfir þetta allt sjálf og þá er það auðvitað hið besta mál. En það hefur þó aðallega orðið fyrir mönnum, sem er út af fyrir sig skiljanlegt, að ræða um þörfina á höfuðborgarsvæðinu og ég er ekki að gera lítið úr því. Það liggur alveg fyrir að hér eru miklir biðlistar sem þarf að vinna bug á. En þörfin er líka til staðar í ýmsum staðbundnum tilvikum víða um landið.

Herra forseti. Úr því að ég er staðinn upp á annað borð get ég svo sem eins vel komið því að hér og nú og það á ekki síður heima í umræðu um þetta dagskrármál en því sem er næst á eftir á dagskrá, heilbrigðisáætlun, að það blasa við mönnum gríðarleg verkefni fram undan á komandi árum og áratugum. Það liggur alveg fyrir að við erum að fá yfir okkur þróun sambærilega við það sem orðið hefur hjá mörgum nágrannalöndum á undan okkur að aldurssamsetning í samfélaginu er hægt og rólega að breytast og mun gera það áfram á næstu árum og áratugum og þarna mun myndast mjög mikil viðbótarþörf á komandi árum. Auðvitað er þeim mun mikilvægara að menn ráðstafi vel og skynsamlega því fé sem er til ráðstöfunar. Þar ætla ég að láta mér nægja að segja það eitt að þar held ég að lausnin felist ekki í þeirri einkavæðingar- og einkarekstrarleið sem menn hafa illu heilli aðeins verið að leggja af stað inn á í þessum málaflokki. Þar má að sjálfsögðu ekki rugla saman annars vegar því hugsjónastarfi sem ýmis félagasamtök og sjálfseignastofnanir hafa lengi staðið fyrir þar sem menn hafa tekið að sér og haft forustu um uppbyggingu á þessu sviði, ekki til þess að græða á því peninga, ekki til þess að draga út úr þeim rekstri fé til að hafa í persónulegan arð, heldur einmitt til þess af hugsjónamennsku að ráðstafa hverri krónu sem menn hefðu handa á milli aukinheldur ýmiss konar sjálfsaflafjár og söfnunarfjár til uppbyggingarinnar sjálfrar. Fátt fer meira í taugarnar á mér en þegar menn eru að reyna að læða að nýjum hugmyndum um einkarekstur í velferðarþjónustunni á allt öðrum forsendum en þessum, læða því með og blanda því saman við það sem við höfum þekkt af slíku tagi í gegnum tíðina.

Það er kristaltært í mínum huga að til lengra tíma litið verður dýrara og til óþurftar fyrir hið opinbera sem ber ábyrgð á þessari þjónustu að binda sig í báða skó með langtímasamningum við einkaaðila sem koma til með að hafa undirtökin í þeim samskiptum sem eigendur húsnæðisins og með allt sitt á þurru í gegnum langtímasamninga við ríkið. Það er kapítalismi, herra forseti, sem mætti með réttu kenna við hinn vonda sjálfan. Það er pilsfaldakapítalismi af verstu tegund sem þar á að fara að ástunda og gera í þessum tilvikum út á velferðarkerfið sjálft.

Um stöðu aldraðra, herra forseti, væri líka ástæða til að hafa uppi mörg orð. Það er algerlega ljóst að það er vissulega svo með aldraða eins og marga fleiri hópa að staða þeirra er misjöfn en það er algerlega borðleggjandi og ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að í hópi aldraðra er hluti þeirra þjóðfélagsþegna sem býr við hvað lökust kjör allra landsmanna um þessar mundir. Svona þriðjungur, a.m.k. fjórði partur aldraðs fólks, sem hefur ekki úr öðru að spila en strípuðum bótunum einum saman, býr við gersamlega óviðunandi afkomu. Allar tölur og reynslusögur, sem ég geri ráð fyrir að fleiri en ræðumaður fái á sitt borð eða í gegnum síma, færa manni heim sanninn um það.

Ég er með í höndunum, bara svo að dæmi sé tekið, seðil frá Tryggingastofnun ríkisins til aldraðra hjóna sem mér var sendur í morgun og sendibréf með. Það er allt í lagi aðeins að vitna til þess sem þar kemur fram. Það sem er rosalegast er að þetta fólk sem hefur engar aðrar tekjur en lítils háttar lífeyrissjóðatekjur og svo tryggingabæturnar, fær núna desemberuppbót, sem er af hinum mikla rausnarskap 30% álag á þær tryggingabætur sem þetta fólk fær, missir þær að verulegu leyti í skatta vegna þess að skattheimtan byrjar við 60--65 þús. kr. Þegar menn ættu von í örfáum krónum í viðbót, nokkrum þúsund krónum í launaumslagið af því að það er desember, fer það að miklu leyti í skatta af því að þetta fólk er þegar komið upp fyrir skattleysismörk með bótunum plús þeim lífeyrissjóðstekjum sem það hefur.

Það er mjög algengt að fólk haldi að þetta hljóti að vera mistök og það var upphafið af því að þessir aðilar höfðu samband við mig. Þeir trúðu því ekki að það gæti verið að það ætti að rífa desemberuppbótina af þeim að verulegu leyti í skatta en það er því miður staðreynd. Svo neðarlega eru skattleysismörkin komin að jafnvel þessar litlu tekjur lenda í þeim og menn geta væntanlega gert það upp við sig hver fyrir sig hvort þeim þykir það vera þannig afkoma hjá hjónafólki sem hefur þessar 45 þús. kr. í hjónalífeyri á mánuði hvort um sig, og lítils háttar viðbót úr lífeyrissjóðum, að það sé í hópi skattgreiðenda í landinu. Það er heldur dapurlegt, herra forseti.

Ég ætla ekki að öðru leyti að ræða frekar um um kjör aldraðra en það á samt fullt erindi inn í umræðuna. Það er auðvitað ljóst að kjör aldraðra og möguleikar þeirra, m.a. og ekki síst hvað tekjur snertir, til þess að sjá sjálfu sér farborða úti í samfélaginu og þurfa ekki að leita á náðir stofnana eða koma sér með slíkum hætti þannig fyrir, eru hluti af því máli sem við erum að ræða um. Ekki er nokkur minnsti vafi á því huga mínum að afkoma aldraðs fólks og þess hluta þess sem hefur lakasta stöðuna er í mjög nánum tengslum við þá þörf sem myndast hjá hinu opinbera hvað varðar vistun og úrræði og hlutir eins og að afkoman bjóði upp á sæmilegt öryggi og að eitthvert borð sé fyrir báru, að það sé öflug heimaþjónusta, getur verið einhver besta fjárfesting sem þjóðfélagið getur lagt í og afstýrt öðrum og miklu meiri útgjöldum ef illa tekst til í formi dýrrar vistunar og lakari heilsu og annarra slíkra hluta. Mér hefur stundum, herra forseti, þótt vera lítill skilningur á þessum þætti málsins hversu góða fjárfesting skynsamlegar aðgerðir sem lúta að því að bæta aðstöðu fólks og auka vellíðan þess, bæta heilsu og þar með möguleika manna á því að lifa góðu lífi úti í samfélaginu sem fullgildir þátttakendur í því. Mér virðist að margar aðrar þjóðir hafi meiri skilning á þessu, ég nefni þar sem dæmi frændur okkar Dani. Þar er mjög mikilvæg og markviss stefnumótun á þessu sviði að reyna að styðja sem allra flesta til að vera færir um að sjá um sig sjálfir og sjá sér farborða sjálfir úti í samfélaginu. Auðvitað veit ég að þetta á að heita stefnan í málefnum aldraðra og fatlaðra o.s.frv. en eitt eru orð á blaði, falleg orð eins og sjálfsagt standa og menn fara að ræða á eftir í heilbrigðisáætluninni, og hitt er stundum veruleikinn. En veruleikinn er sá að aðstæður og kjör a.m.k. þriðjungs aldraðra í landinu eru þannig fyrir utan hina siðferðilegu og mannlegu hlið í því dæmi og beinlínis óskynsamlegt og alls ekki til þess fallið að byggja undir stefnu af þessu tagi sem ég hef verið að nefna að gera mönnum kleift að sjá sjálfum sér farborða og lifa góðu lífi úti í samfélaginu. Þá er hættan augljóslega sú að það leiti yfir í þrýsting á hið opinbera og stofnanaúrræði og þar fram eftir götunum sem menn gætu afstýrt í mörgum tilvikum ella.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þessi leiðrétting á upphæðunum er að sjálfsögðu örugglega rétt út reiknuð og eðlileg. Ég hefði talið betra að þetta væri fært upp reglulega þannig að breytingin væri þá minni í hvert skipti. Það veitir víst ekki af ef verðbólgan fer að láta á sér kræla með þeim hætti sem hún er að gera um þessar mundir. Fastar krónutöluhæðir rýrna hratt ef þær eru ekki leiðréttar á hverju ári auk þess sem það er hvort eð er besta fyrirkomulagið þannig að stökkin séu sem minnst hverju sinni.