Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:17:56 (2966)

2000-12-07 18:17:56# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á tölu um málefni aldraðra í heild. Ég ætla eingöngu að tala um gjaldið sem við erum að ræða um að hækka. Umrætt gjald er í reynd skattur og hefur sem slíkt tvo ókosti.

Í fyrsta lagi er gjaldið nefskattur sem er félagslega afskaplega óréttlátur. Það borga allir sama skatt, sama hvaða tekjur og eignir þeir hafa. Það er náttúrlega óeðlilegt og ófélagslegt, að maður með lágar tekjur borgi sama gjald og sá sem hefur háar tekjur. Þetta er það fyrsta sem ég hef við þennan skatt að athuga.

Í öðru lagi er hann mjög dýr í innheimtu. Þetta er lágt gjald og það kostar sitt, t.d. bara prentkostnaður og að halda utan um það í bókhaldi. Nú hef ég ekki séð könnun á hve mikið það kostar en ég reikna með því að drjúgur hluti af þessu gjaldi fari í rekstur.

Einn ókosturinn enn við þennan skatt er að þetta er markaður tekjustofn, markaður skattur. Peningarnir eru merktir ákveðnum verkefnum. Ég teldi miklu eðlilegra að útgjöld til þessa málaflokks væru ákveðin á fjárlögum eins og önnur útgjöld. Þá væri það á hendi fjárln. að ákveða framlög í þennan sjóð. Það mætti þá gjarnan hækka þau miðað við vísitölu, byggingarvísitölu eða annað slíkt, enda er þetta ætlað til bygginga. Fjárln. mundi þá ákveða t.d. 680 millj. í þennan sjóð á fjárlögum. Ég held, herra forseti, að menn ættu að huga að því ef aftur verður farið í að breyta skattkerfinu að hækka þá skattprósentuna, þ.e. lækka hana ekki eins mikið, og láta þennan flata nefskatt falla niður.