Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:32:45 (2972)

2000-12-07 18:32:45# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Er nægilega eyrnamerkt í hvað þessir peningar fara? Ég velti því fyrir mér. Hæstv. heilbrrh. svaraði spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hlutfallið sem hefði farið í rekstur af fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra væri 50%. Samkvæmt 9. gr. laganna um málefni aldraðra er talað um að þetta fjármagn eigi að fara í rekstur í sérstökum tilvikum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta hlutfall sé ekki hærra en menn höfðu ætlað í rekstur þegar til laganna var stofnað á sínum tíma, herra forseti. Gaman væri að fá að heyra það frá hæstv. heilbrrh. hvort menn hafi hugsað sér það í upphafi að þetta hlutfall væri svona hátt vegna þess að samkvæmt lögum er þetta ekki alveg skýrt en það virðist sem það hafi átt að vera í mjög sérstökum tilvikum sem framlög væru sett í rekstur.

Ég ítreka líka spurningu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom með áðan og ég heyrði hæstv. heilbrrh. ekki svara. Það var hvað það kostaði að leysa brýnu þörfina fyrir þessi 230 manns á höfuðborgarsvæðinu og á hversu löngum tíma væri hægt að svara þeirri þörf. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá þetta fram í umræðunni og mjög mikilvægt þegar til þess kemur að úthluta fjármunum að þeir fari í þessa brýnu þörf. En það væri gott að fá svar við spurningunni, herra forseti, hvað kostar að leysa brýnu þörfina og hve langan tíma gæti það tekið.