Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:37:58 (2976)

2000-12-07 18:37:58# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Víðtæk áætlunargerð og stefnumótun í heilbrigðismálum hefur átt erfitt uppdráttar á Íslandi. Þetta stafar m.a. af því að heilbrigðiskerfið hefur fram á seinustu áratugi einkennst af dreifðri uppbyggingu þjónustunnar, einangrun stofnana og erfiðum samgöngum. Segja má að enginn einn aðili hafi markað meginstefnuna í heilbrigðismálum heldur komi frumkvæði frá mörgum aðilum. Þetta stjórnunarform hafði þannig ákveðna kosti en einnig þann galla helstan að ekki kom fram nein samræmd heildarstefna.

Sú skoðun var jafnframt ríkjandi að áætlunargerð og setning markmiða væri eitthvað sem ætti ekki við í heilbrigðiskerfinu. Verkefni heilbrigðisþjónustunnar væru fyrst og fremst faglegs eðlis og hlytu eðli málsins samkvæmt að lúta eigin lögum. Ekki væri mögulegt að setja sér markmið eða fylgja fyrir fram gerðum áætlunum á sama hátt og t.d. í samgöngu-, iðnaðar- eða orkumálum.

Í dag hafa aðstæður að mörgu leyti breyst eða eru að breytast. Gerðar eru kröfur til þess að heilbrigðisþjónustan móti sér ákveðna framtíðarsýn og að meginhlutverk hennar sé skilgreint. Sömuleiðis er þess krafist að heilbrigðisþjónustan setji sér markmið og fylgi skipulegum áætlunum, heilbrigðisáætlun verði m.a. að taka til heilbrigðismarkmiða, þjónustumarkmiða, gæðaþróunar, rannsókna, menntunar, fjármála, stjórnunar, skipulags og stefnu í starfsmannamálum.

Líkt og annars staðar á Norðurlöndunum kom sérstakt ráðuneyti heilbrigðismála tiltölulega seint til sögunnar hér á landi eða árið 1970. Framan af áttu tilraunir ráðuneytisins til skipulegrar áætlunargerðar erfitt uppdráttar. Stefnumörkun varðandi uppbyggingu heilsugæslunnar með samþykkt samræmdrar heilbrigðislöggjafar árið 1973 telst þó til undantekninga.

Fyrst árið 1980 voru tekin saman drög að víðtækri heilbrigðisáætlun til lengri tíma. Í ársbyrjun 1986 var ákveðið að vinna að landsáætlun í heilbrigðismálum með hliðsjón af íslenskum aðstæðum og stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000.

Till. til þál. um íslenska heilbrigðismálastefnu var lögð fram á Alþingi veturinn 1986--1987, endurskoðuð og lögð fram á heilbrigðisþingi í febrúar 1988, lögð fram aftur á Alþingi veturinn 1990--1991 og loks samþykkt 19. mars 1991. Heilbrigðisáætluninni var ætlað að ná til ársins 2000 en átti að endurskoða að þremur árum liðnum. Á árunum 1991--1992 voru gerð drög að sérstakri framkvæmdaáætlun og nefndist hún Heilbrigð þjóð, forvarnir og heilsustefna til ársins 2000.

Árið 1996 hófst endurskoðun heilbrigðisáætlunar frá 1991. Að því starfi hefur einkum komið nefnd um endurskoðun og endurbætur í heilbrigðisáætlun. Í nefndinni sátu fyrrv. heilbrrh., aðstoðarmenn ráðherra, ráðuneytisstjóri heilbrrn., landlæknir, fulltrúar fagstétta og stjórnenda auk starfsmanna heilbr.- og trmrn.

Virðulegi forseti. Árið 1948 skilgreindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hugtakið heilbrigði á eftirfarandi hátt:

Heilbrigði er fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg velferð, ekki einungis firrð sjúkdóma og vanheilinda. Þessi skilgreining á heilbrigði lá til grundvallar ályktuninni um heilbrigði allra árið 1977 og svonefndri Alma Ata-yfirlýsingu frá árinu 1978. Á grundvelli þessarar yfirlýsingar var gerð á vegum WHO sérstök Evrópuáætlun í heilbrigðismálum árið 1984 og innihélt hún alls 38 meginmarkmið.

Í lok 8. áratugarins og byrjun þess 9. gerðu flestar þjóðir Evrópu sérstakar landsáætlanir til að framfylgja Evrópu\-áætlun WHO. Svíar voru fyrstir norrænna þjóða árið 1985. Finnar fylgdu á eftir 1987, Norðmenn 1988, Danir 1989 og loks Íslendingar árið 1991. Landsáætlun Bandaríkjamanna leit dagsins ljós árið 1990, landsáætlun Breta 1992. Í kjölfar Maastrict-samkomulagsins 1992 urðu heilbrigðismál hluti af samstarfi ESB-ríkjanna.

Vorið 1998 samþykkti alþjóðaheilbrigðisþing stefnumörkum um heilbrigði allra á 21. öldinni. Svæðisnefnd WHO í Evrópu samþykkti haustið 1998 nýja Evrópuáætlun sem nær í flestum atriðum til ársins 2020 og þar er lögð áhersla á 21 heilbrigðismarkmið í stað 38 áður.

Virðulegi forseti. Við mótun fyrirliggjandi heilbrigðis\-áætlunar var annars vegar tekið mið af stefnumörkun WHO um heilbrigði allra og heilbrigðisáætlunum annarra ríkja og hins vegar stefnumótun og úttektum undanfarandi ára á fjölmörgum þáttum heibrigðismála hér á landi. Heilbrigðisáætlunin byggist jafnframt á 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, þar sem tilgangur heilbrigðisþjónustunnar er skilgreindur þannig:

Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.

Til grundvallar heilbrigðisáætluninni liggja einnig nýlegar viðmiðunarreglur um forgangsröðun á verkefnum og viðfangsefnum heilbrigðisáætlunarinnar. Var sérstök áhersla lögð á að tryggja rétt þeirra sem sökum æsku, fötlunar eða öldrunar eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu.

Heilbrigisáætluninni má skipta í þrjá hluta. Í fyrsta lagi er um að ræða svonefnd forgangsverkefni, Evrópumarkmið WHO, og íslensk markmið til ársins 2010. Í öðru lagi var fjallað um stöðu og horfur í íslensku þjóðfélagi, stjórnkerfi og skipulag heilbrigisþjónustunnar. Í þriðja lagi er gerð grein fyrir ýmsum sérsviðum, stoðgerðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja bæði gæði og framþróun heilbrigðiskerfisins. Samkvæmt áætluninni er ætlunin að eftirtalin svið hafi forgang:

1. Áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir.

2. Börn og ungmenni.

3. Eldri borgarar.

4. Geðheilbrigði.

5. Hjarta- og heilavernd.

6. Krabbameinsvarnir.

7. Slysavarnir.

[18:45]

Á hverju sviði er gerð grein fyrir stöðu mála, væntanlegri þróun og leiðum til þess að ná þeim markmiðum sem keppt verður að á næstu árum. Sem dæmi má nefna að á sviði tóbaksvarna eru sett þau markmið að lækka hlutfall þeirra sem reykja á aldrinum 18--69 ára úr 27% árið 1999 niður í 15% árið 2010. Sömuleiðis er markmiðið að draga verulega úr reykingum barna og unglinga.

Annað dæmi snýst um að draga úr dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma um 20% hjá körlum og 10% hjá konum á aldrinum 25--74 ára. Það þýðir lækkun úr 198 tilfellum að meðaltali á ári hverju á hverja 100 þús. karlmenn á árunum 1991--1995 í 158 árið 2010, og lækkun úr 76 tilfellum hjá 100 þús. konum í 68 á sama tímabili.

Þau 21 Evrópumarkmið sem mynda meginþætti heilbrigðisáætlunarinnar eru til samræmis við Evrópuáætlun WHO og skiptast í eftirtalda sex hluta:

1. Samábyrgð og jafnræði.

2. Bætt heilsufar.

3. Forvarnir og heilsuvernd.

4. Þverfaglegar aðgerðir.

5. Árangursrík heilbrigðisþjónusta.

6. Rannsóknir, samstarf og verkáætlanir.

Undir hverju Evrópumarkmiði eru í flestum tilvikum tilgreind tvö til sex íslensk markmið og tölulegir mælikvarðar fyrir Ísland. Mælikvarðarnir eru fyrst og fremst valdir til að fá betri yfirsýn yfir stöðu heilbrigðismála og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er gert í ljósi þess að mikilvægt er að nota ekki of marga mælikvarða samtímis því þá er hætta á því að mikilvægustu atriðin hverfi í skugga þeirra sem síður skipta máli.

Virðulegi forseti. Í heilbrigðisáætluninni er lögð megináhersla á langtímaheilbrigðismarkmið. Hún miðar að því að bæta heilsufar þjóðarinnar. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var fengin til að framkvæma sérstaka kostnaðar- og ábatagreiningu á heilbrigðisáætluninni. Meginniðurstaðan er sú að verði markmiðum hennar náð ætti að vera mögulegt að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði sem er á bilinu 7,5--15 milljarðar árlega. Til að ná þessum markmiðum þarf í ákveðnum tilvikum stofna til aukins kostnaðar en í öðrum tilvikum má áreiðanlega ná fram markmiðum með endurskipulagningu núverandi starfsemi.

Heilbrigðisáætluninni er ætlað að gilda til ársins 2010 en á árinu 2005 verður sérstök endurskoðun á öllum helstu markmiðum hennar. Heilbr.- og trmrn. mun annast hina stjórnsýslulegu framkvæmd og endurskoðun markmiða áætlunarinnar. Landlæknisembættið mun sjá um söfnun og úrvinnslu tölulegra upplýsinga og faglegt eftirlit. Héraðslæknar, heilbrigðisstarfsmenn, stjórnir sem og framkvæmdastjórar stofnana munu sömuleiðis vinna að því að ná settum markmiðum og tryggja eftirlit með framkvæmd áætlunarinnar á hverjum stað. Árlega verður gefið út yfirlit eða skýrsla um stöðu og framvindu þeirra verkefna sem heilbrigðisáætlunin nær til.

Virðulegi forseti. Ég vona að heilbrigðisáætlun og málefni heilbrigðisþjónustunnar fái vandaða umfjöllun á yfirstandandi þingi. Ég legg því til að till. til þál. um heilbrigðisáætlun til ársins 2010 verði vísað til heilbr.- og trn.