Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:26:09 (2983)

2000-12-07 19:26:09# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:26]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Ásta Möller hefði nákvæmlega sömu svör við öllum þessum spurningum og ég. Það er nefnilega ekkert sem sýnir fram hagkvæmni þeirra breytinga sem ég spurði um. Ég sagði að í raun hefði ekki verið sýnt fram á samhengi á milli t.d. einkareksturs í heilbrigðiskerfinu og hagræðingar. Margir hafa þó haldið slíku fram og eins að einkavæðing leiði til minni ríkisútgjalda. Það er klisja sem maður heyrir ansi oft og því miður er ekkert sem sannar það eða afsannar. Ef eitthvað er þá bendir margt til hins gagnstæða hvort sem skipulagsbreytingin sem slík er ástæðan eða ekki.

Eitt er mikilvægt að benda á, þ.e. jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu sem er mjög mikilvægt að við höfum alltaf í huga í þessari umræðu. Tvískipt heilbrigðiskerfi í nágrannalöndum okkar, þá vil ég nefna kannski helst Bretland til sögunnar, hefur leitt til þess að þar er langt í frá að menn njóti jafnræðis þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Það er ekki síst það sem ég hef áhyggjur af.

Margir vilja fara varlega í þessum efnum og við verðum að geta séð fyrir hvert einkavæðing í heilbrigðisþjónustu leiðir okkur, sérstaklega þegar það er ekki svo margt sem réttlætir slíkar breytingar. Nútímalegir stjórnunarhættir hafa kannski skilað árangri en það er hægt að innleiða nútímalega stjórnunarhættir á opinberum stofnunum þó að það kunni að vera þyngra í vöfum. Við þurfum að spyrja okkur hvaða verði við erum tilbúin að kaupa þetta. Ég verð aldrei tilbúin til að skrifa upp á breytingar sem kosta það að jafnræði fólks til heilbrigðisþjónustu sé á einhvern hátt ógnað.