Tollalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:50:27 (2991)

2000-12-07 19:50:27# 126. lþ. 43.12 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að að sé endilega svo slæm breyting að leggja niður embætti ríkistollstjóra eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það kunna vel að vera rök fyrir því að ekki sé ástæða eða tilefni til að halda þar úti sjálfstæðu stjórnsýsluembætti eða stofnun. Þó vekur það ýmsar spurningar þegar maður sér þróunina ganga í þá átt sem þarna er lögð til, að slík verkefni hverfi til baka inn í ráðuneytið þaðan sem þau voru færð fyrir 10--12 árum síðan, ef ég man rétt. Þá hlýtur það jafnframt að vera svo, til viðbótar breyttum aðstæðum að einhverju leyti, að skipan mála hafi að dómi manna ekki gefist nógu vel. Ég hef hins vegar vissar efasemdir um að á þessu sviði sé endilega heppilegt að þessi verkefni hverfi aftur til ráðuneytisins. Ég hélt að almenna þróunin væri frekar í hina áttina, að færa verkefni af þessu tagi út til sjálfstæðra stjórnsýslustofnana og menn vildu síður hafa þau inni í ráðuneytunum sjálfum, jafnvel þó það yrðu ekki mjög stórar stofnanir eða mannaflafrekar sem til sögunnar kæmu.

Að þessu leyti virðist þróunin dálítið mótsagnakennd, herra forseti. Undanfarin ár höfum við séð allnokkrar slíkar sjálfstæðar stjórnsýslustofnanir verða til. Menn hafa einmitt leitast við að færa út úr ráðuneytum verkefni sem mönnum finnst ekki liggja svo nærri hinni formlegu yfirstjórn mála og framkvæmdarvaldinu sjálfu að það sé að öllu leyti heppilegt að hafa þau þar. Þannig hefur einmitt verið með eftirlitshlutverk af því tagi sem þarna var að hluta til staðar hjá ríkistollstjóra.

Í öðru lagi, herra forseti, finnst mér dálítill miðsæknisblær á þessu máli. Maður spyr sig hvort það sé endilega sjálfgefið að þó menn vilji leggja niður sjálfstætt embætti ríkistollstjóra, þá eigi að gera það með þessum hætti. Annars vegar að færa verkefni aftur inn í ráðuneytið og hins vegar að gera einn af tollstjórum landsins, tollstjórann í Reykjavík, með tilteknum hætti að yfirtollstjóra í landinu.

Ég hefði viljað skoða það mál betur, herra forseti, en mér virðist ætlunin að gefa tíma til hér. Ég vek athygli á því að samkvæmt þessu frv. er gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar árið 2001. Það er nú ekki mjög langt þangað til þannig að hæstv. ráðherra hefur ekki ætlað Alþingi langan tíma til að fara ofan í saumana á frv. Breytingin er kannski ekki svo stórvægileg. Það tengist mannabreytingum og fleiru að þetta geti allt gengið. Þarna er ákv. til brb. sem væntanlega er ætlað að taka á réttaróvissu sem kynni ella að koma upp um áramótin, þ.e. að taka á því hvernig réttindi og skyldur embættisins færast til ráðuneytisins og tollstjórans í Reykjavík. Ég tel þó að tæpast verði um það deilt að ágætt hefði verið að hafa einhverjar vikur í viðbót til að skoða þetta.

Ég tek gild orð hæstv. ráðherra um að leitast eigi við að leysa þau mál sem snúa að starfsmönnum þannig að þeim verði boðin sambærileg störf eftir því sem það er mögulegt. Vonandi þarf ekki að koma til neinna uppsagna enda er það væntanlega ekki ætlunin að menn standi á götunni.

Hins vegar er ekki ljóst, herra forseti, hvort sjálfgefið er að standa að þessum breytingum eins og hér er ætlað. Mér sýnist a.m.k. einn þáttur þessa máls verða dálítið sérkennilegur. Það er hlutverk og staða tollstjórans í Reykjavík, sem eins af tollstjórunum í landinu, gagnvart kollegum sínum annars staðar. Ég vek athygli á orðalagi á bls. 8 í grg. frv. sem hæstv. ráðherra fór yfir að hluta, en þar stendur, m.a. undir fyrirsögninni Tilflutningur verkefna til tollstjórans í Reykjavík, með leyfi forseta:

,,Samhliða fyrrgreindri tilfærslu verkefna til fjármálaráðuneytis verður tollstjóranum í Reykjavík falið að fara með tiltekið samræmingarhlutverk svo og að stýra, í samráði við viðkomandi tollstjóra, eftirlitsaðgerðum á landsvísu.``

Þetta er nokkuð athyglisvert orðalag, herra forseti. Svo er talað um að með slíkri hagræðingu eigi að vera hægt að nýta betur fjármuni o.s.frv. og að einkum sé horft til herts fíkniefnaeftirlits og bættrar tollheimtu.

Svo kemur, herra forseti, það sem ég staldraði kannski mest við út frá réttarfarslegri hlið þessara mála:

,,Gert er ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík geti haft umsjón með rannsókn tollamála hvar sem er á landinu gerist þess þörf. Þrátt fyrir að tollstjóranum í Reykjavík sé falið að annast, í umboði ráðherra, tiltekna yfirumsjón þessara mála er lögð á það rík áhersla að hann hafi virkt samráð við tollstjóra í hverju umdæmi og að þeir fari með umsjón aðgerða í sínu umdæmi eftir því sem kostur er.``

Herra forseti. Nú er það svo að tollgæslan fer með tiltekið lögregluhlutverk og þá spyr maður: Er ekki með vissum hætti verið að bjóða upp á mögulega árekstra með orðalagi af þessu tagi? Er ekki hætt við því, herra forseti, að þarna komi til núnings ef svo óljóst er um hlutina búið? Eða er verið að dulbúa það að í raun verði tollstjórinn í Reykjavík nánast það sem ríkistollstjóri var áður, settur yfir hina tollstjórana í landinu? Það er voðalega erfitt annað en fá það á tilfinninguna að þannig muni þetta í reynd verða. Sé svo ekki þá bið ég um nánari skýringar á því hvar landamærin verða dregin.

Það er augljóslega ekki hægt að bera þetta saman við samskipti ríkistollstjóra áður og einstakra tollstjóra í landinu. Þar er ólíku saman að jafna. Það er auðvitað ljóst að lagalega var ríkistollstjóri yfir aðra tollstjóra landsins settur og engin deila um það.

Vissulega er tollstjóraembættið í Reykjavík langmikilvægast. Hér fer stærstur hluti varningsins í gegn en þar með er ekki endilega sagt að eftirlitið þurfi að beinast að því í sama mæli. Oft hefur ekki síður verið talin ástæða til að halda uppi virku eftirliti á smærri stöðum eða þar minna vörumagn fer í gegn, einfaldlega vegna þess að menn sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu hugsi sér að kannski sé frekar hægt að sleppa í gegn þar sem eftirlitið er mögulega minna.

Menn geta ekki bara horft á það að þarna fari um svo hátt hlutfall eins og hæstv. fjmrh. nefndi, 80% eða svo, af almennum vöruinnflutningi inn um þessa höfn. Það gerir það í miklum magnsendingum en fjöldi eininga getur verið annar. Eins vísa ég til þess að eftirlitinu gæti þurft að haga með fleiri þætti í huga en hlutfallslegt magn varnings.

Að síðustu vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Var það skoðað í tengslum við þessa breytingu að grípa tækifærið, úr því að hér á að leggja niður stofnun og embætti og færa verkefnin annað, og láta eitthvað rætast af öllu talinu að færa verkefni út á land? Kom ekki til greina að fela það öðrum tollstjóra, t.d. tollstjóranum á Akureyri eða sýslumanninum þar, e.t.v. með því að stofna sérstakt tollstjóraembætti, og færa slík verkefni þangað? Nei, ég efast um að það hafi verið skoðað, gefi ég mér svarið svona að hálfu leyti fyrir fram. Mönnum hefur af gömlum vana þótt svo sjálfsagt að þessi verkefni færðust inn í ráðuneytið og til tollstjórans í Reykjavík að slíkir hlutir hafa væntanlega ekki verið hugleiddir.

Það ætti þó að vera hægt að koma slíku við með öllum pappírslausu viðskiptunum og rafrænu sendingunum sem samskiptin eru að færast yfir í, eins og hæstv. fjmrh. vitnaði til. Í sjálfu sér skiptir staðsetning samræmingar- og eftirlitsaðilans, landfræðileg staða hans, ekki öllu máli. Hefði þetta þá ekki verið upplagt? Hefði ekki verið kostur að hafa umsjón þessa ekki hjá tollstjóranum í Reykjavík vegna þess hve yfirgnæfandi stórt það embætti er? Hefðu þessi verkefni ekki verið prýðilega komin t.d. á Akureyri eða Eskifirði, þ.e. annars staðar þar sem er þó umtalsverður inn- og útflutningur og tollstjóri eða sýslumaður er til staðar?

[20:00]

Þetta leyfi ég mér að nefna, herra forseti, af því að þetta vill æðioft gleymast þrátt fyrir öll fögru fyrirheitin og hástemmdu yfirlýsingarnar og loforðin um að nú eigi aldeilis að brjóta í blað og í krafti hinnar nýju tækni og möguleika muni stórir hlutir gerast í þessum efnum hvað varðar flutning starfa og verkefna út um landið og dreifingu á þjónustunni o.s.frv.

Hitt er alveg ljóst öllum sem til þekkja að þróunin er öll í hina áttina og hún er alltaf í gangi. Það er alltaf uppi sú tilhneiging að taka verkefnin og færa þau saman á einn stað. Annað embætti, náskylt ríkistollstjóraembættinu, hefur verið gott dæmi um þetta undanfarin ár, það er ríkisskattstjóri. Ég hef fylgst með því hvernig það hefur verið undanfarin ár. Það hafa ítrekað komið plögg og verið í gangi þróun að draga undir ríkisskattstjóraembættið hluti sem voru áður úti í umdæmunum.

Ég hef m.a. beitt mér fyrir því að stöðva slíka hluti sem voru á ferðinni í lagafrumvörpum í þinginu, algjörlega hugsunarlaust og vélrænt. Mönnum fannst einfaldast að hafa þetta allt hér og færa þetta saman undir eitt stórt embætti í Reykjavík. Þá er auðvitað ekki von á góðu, þá er ekki von á öðru en næst komi tillaga um að leggja viðkomandi sýslumannsembætti niður o.s.frv., en það er það sem verið er að gera. Fyrst eru reytt af þeim verkefnin, ekki er höfð sú hugsun uppi að nýta betur þann mannafla og aðstöðu sem þar er til staðar. Nei, verkefnin eru dregin undan þessum embættum og svo koma menn og segja: Það er engin glóra í því að vera með sýslumannsembætti á þessum stöðum, það er of lítið fyrir þá að gera. Sama verður sjálfsagt fljótlega uppi á teningnum með tollumsýsluna í landinu. Verður ekki næsta frv. ef svo heldur sem horfir eftir fimm eða tíu ár frv. um að leggja öll tollstjóraembætti niður, nema bara tollstjórann í Reykjavík?

Herra forseti. Ég óttast ef menn fara vélrænt og hugsunarlaust í gegnum hverja breytinguna á fætur annarri að þá endi þetta allt með einhverjum slíkum hætti.

Ég hefði gjarnan viljað ef tími hefði verið til, ég skal ekkert vera að krefja hæstv. ráðherra endilega svara um þetta eða neyða hann til langra ræðuhalda hér, en mér hefði þótt ástæða til að farið yrði yfir þessa hluti, ef ekki nú, þá í þingnefnd sem fjallar um þetta mál og síðan við 2. umr. því jafnvel þótt naumur tími sé til stefnu og menn telji sig vera með ákaflega merkilegt og vandað og vel búið mál í höndunum geti verið ástæða til að fara yfir ýmislegt þar og skoða ýmislegt í því sambandi. Menn mega ekki kasta svo til höndunum eða flýta sér svo að menn neiti sér alveg um möguleikann á því að fara yfir hlutina með gagnrýni og velta því fyrir sér hvort fleiri möguleikar séu í stöðunni.