Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:34:07 (2997)

2000-12-07 20:34:07# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:34]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég skal reyna að vera stuttorð, en ég má til með að bregðast við nokkrum atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Það er eðlilegt að hún gagnrýni það að hér skuli hafa verið sett lög á Alþingi sem síðan komu nánast ekki til framkvæmda vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA. Sannleikurinn er sá, eins og ég lét koma fram í máli mínu, að ESA byggir athugasemdir sínar á túlkunum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur beitt gagnvart aðildarríkjum ESB í sambærilegum tilvikum og þessar túlkanir lágu ekki nema að takmörkuðu leyti fyrir þegar nefnd sú er samdi upphaflega frv. var að störfum. Þess vegna tel ég ekki hægt að segja að um handvömm frumvarpshöfunda hafi verið að ræða fyrst og fremst, en hv. þm. vildi meina að svo hefði verið.

Ég held að það sé ekki rétt hjá henni að fyrst og fremst sé talað um vinnubrögð á Alþingi í þessu sambandi og flumbrugang, heldur hafi menn verið að vinna þarna í þeirri trú að lögin stæðust öll þau ákvæði sem þau þyrftu að standast með tilliti til þeirra reglna sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Það sem hv. þm. sagði í sambandi við endurgreiðslurnar var á einhverjum misskilningi byggt vegna þess, eins og kemur fram í 5. gr., þá er verið að tala um 12% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði og það er fest í 12% sem er breyting frá því sem áður var. Til þess að fá þessar endurgreiðslur og til þess að fá endurgreiðslur umfram þau 80% sem falla til á Íslandi, þá er það þannig að það sem fellur til á hinu Evrópska efnahagssvæði umfram þau 80% sem falla til á Íslandi, þarf að endurgreiða. Það er nýtt og þar er tekið tillit til athugasemda ESA vegna þess að í athugasemdum þeirra þótti það ekki samræmast þjónustuákvæðum Evrópska efnahagssvæðisins að gera það að skilyrði að einungis skyldi endurgreitt það sem félli til á Íslandi. Þetta er breyting. Það verður því að lesa 2. gr. frv. og 5. gr. samhliða.

Þetta gildir að sjálfsögðu um innlenda framleiðendur líka. Ég hef trú á því að þetta ákvæði, þ.e. að 80% þurfi að falla til á Íslandi, eigi kannski meira við um íslenska framleiðendur en erlenda. Hins vegar verðum við að átta okkur á því að það sem fellur til af kostnaði innan EES-svæðisins, er ekki endurgreitt ef innan við 80% falla til á Íslandi. Þetta er svolítið ruglingslegt en ég vona nú samt, þó nú sé orðið alláliðið dags, að ég hafi komið þessu sæmilega skilmerkilega frá mér.

Hv. þm. nefndi einnig að menntmn. fengi þetta mál til umsagnar. Ég tel í sjálfu sér enga sérstaka ástæðu til þess, en ég get ekkert sett mig í sjálfu sér upp á móti því. Ég tel að þetta mál sé að öllu leyti unnið í iðn- og viðskrn. og þegar það var áður til umfjöllunar, var það unnið í iðnn. Ég vil sérstaklega taka fram, og kom það ekki fram í máli mínu áðan, að þetta frv. sem nú er til umfjöllunar hefur verið lagt fyrir ESA og stofnunin fallist á það í þessari mynd. Nú tel ég því að við þurfum að einbeita okkur að því að vinna frv. til loka og setja lögin á hv. Alþingi þannig að þetta mikilvæga mál nái fram að ganga til hagsbóta fyrir kvikmyndagerð á Íslandi og víðar. Og það er ánægjulegt að nú fyrir örfáum dögum voru Íslendingar svo sannarlega að gera það gott á Evrópska vísu í sambandi við kvikmyndaiðnaðinn.