Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:39:34 (2998)

2000-12-07 20:39:34# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:39]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega þörf á því að styrkja og styðja við bakið á íslenskum kvikmyndaiðnaði. En hæstv. ráðherra hefur enn ekki svarað því á hvaða hátt þetta frv. styrkir innlenda kvikmyndagerð. Mér sýnist að menn þurfi að fara úr landi til að gera hluta af kvikmyndunum til þess að þetta geti átt við. Ég get vel ímyndað mér að einhverjir fleiri akkillesarhælar séu hvað það varðar, t.d. þurfa innlendir kvikmyndagerðarmenn sem hafa fengið styrk úr Kvikmyndasjóði að draga þann styrk frá þeirri upphæð sem teldist innlendur framleiðslukostnaður.

Hvað varðar misskilninginn um tólf prósentin þá er ég fullkomlega meðvituð um að einungis á að endurgreiða 12% af framleiðslukostnaðinum. En það er orðið og hugtakið endurgreiðsla sem ég gagnrýndi því hér er ekki um endurgreiðslu á neinu að ræða. Ef ríkissjóður er að greiða peninga úr sínum sjóði þá er hann í þessu tilfelli að greiða peninga sem hann hefur aldrei fengið inn í sinn sjóð. Hann er að greiða peninga sem hafa verið greiddir til ýmissa aðila og ekki bara á Íslandi heldur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, 12% af öllum framleiðslukostnaði myndarinnar sem er þarna endurgreiðsluhæfur eins og kallað er. Það er það sem ég gagnrýni. Hér er ekki um endurgreiðslu á neinu að ræða heldur er beinlínis um að ræða greiðslu úr ríkissjóði, ekki endurgreiðslu á neinu.

Ég kem í síðara andsvari mínu að því sem ég átti eftir.