Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:43:17 (3000)

2000-12-07 20:43:17# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér erum við kannski komin að einum kjarna þessa máls, þ.e. upphæðunum sjálfum, því eins og hæstv. ráðherra nefnir, eru einungis 50 millj. til þessa verkefnis á fjárlögum yfirstandandi árs og 50 millj. sem gert er ráð fyrir að fari á fjárlög ársins 2001. En í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. við frv. kemur fram að gera megi ráð fyrir því að umsóknir vegna ákvæða frv. muni nema 110--450 millj. kr. á ári eða alls 660--2.250 millj. kr. til ársins 2006 þegar lögin falla úr gildi þannig að 50 millj. á ári eru greinilega aldeilis vanáætlaðar í þetta verkefni hæstv. iðnrh.

Og þegar hæstv. iðnrh. gefur skýringarnar varðandi virðisaukaskattinn, að hér sé einungis um að ræða mögulega endurgreiðslu á helmingi virðisaukaskatts, þá spyr ég: Hvers vegna mega þá hlutirnir ekki heita sínum réttu nöfnum, þ.e. að verið sé að greiða helming virðisaukaskatts? Jú, það er vegna þess að ekki má mismuna fyrirtækjum með skattlagningu eða með því að ívilna í skattlagningu.

En er þá ekki verið að dulbúa hér einhverja hluti? Erum við fullkomlega heiðarleg í því hvernig þetta mál er fram sett? Ég efast um það, herra forseti.