Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 20:44:50 (3001)

2000-12-07 20:44:50# 126. lþ. 43.15 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[20:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hv. þm. væri svolítið jákvæðari í sinni framsetningu vegna þess að ég held að við hljótum að vera sammála um að við erum hér með gott frv. og sem allar líkur standa til að muni efla íslenska kvikmyndagerð og starfsemi í landinu sem eykur tekjur fyrir þjóðina og þar fram eftir götunum.

[20:45]

Ég vil bara endurtaka það vegna þess að hv. þm. efast um að við séum að fara boðlega leið í þessum efnum að þetta frv. hefur verið borið undir Eftirlitsstofnun EFTA og engum blöðum er um það að fletta að ekki verða gerðar athugasemdir við málið í þessari framsetningu. Ég tel að við séum að bregðast við athugasemdum, sem okkur bar skylda til að gera, og setja lögin í þann búning sem allir geta sætt sig við.

Þetta er endurgreiðsla úr ríkissjóði og er fullkomlega löglegt. Þetta er hugsað tímabundið til að efla þessa atvinnugrein sem hefur náttúrlega ekki skapað sér mikla fótfestu, en við bindum miklar vonir við að muni styrkjast og verða okkur Íslendingum enn frekar til framdráttar og til sóma á erlendri grundu og hér heima fyrir.