Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:47:35 (3010)

2000-12-08 10:47:35# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er dæmalaus framganga af hálfu stjórnarmeirihlutans. Sala Landssímans er stórmál og við fylgjumst með umræðu um þetta stórmál í fjölmiðlum. Því er hafnað að fjárln. fái skýrslu einkavæðingarnefndar. Því er hafnað að hún fái drög að skýrslu einkavæðingarnefndar. Því er hafnað að hún fái umsögn um hugsanlega sölu. Þetta er ekki mál fjárln. Þetta er ekki mál þingsins. Þetta virðist enn einu sinni bara vera mál stjórnarmeirihlutans. Málið er fáheyrt vegna þess að í fyrsta sinn að því er ég man eru greidd atkvæði gegn því að fjárlagafrv. sé afgreitt úr fjárln. Þetta er ekkert smámál. Þetta er stórmál, herra forseti. Það er alveg ljóst að friðurinn er úti í þinginu. Ég óska eftir fundi þingflokksformanna og forseta um þetta mál.

Hins vegar finnst mér alveg sjálfsagt að forseti láti atkvæðagreiðsluna fara fram þannig að þeir sem hvort eð er láta ekki sjá sig í fjárlagaumræðunni, þ.e. fyrst og fremst hæstv. ráðherrar, geti horfið á braut til sinna hefðbundnu starfa og losnað úr þinginu, en við hin tekið til við að ræða hvernig Alþingi sjálft ætlar að taka á því að selja eigi eitt stærsta fyrirtækið, gullkálfinn sjálfan, án þess að Alþingi komi þar nokkuð að þó að það sé tilgeint í fjárlagafrv.