Sala Landssímans

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 10:53:15 (3013)

2000-12-08 10:53:15# 126. lþ. 44.91 fundur 180#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur ekki upplýst mikið nema fyrst og fremst það að ekki er lengur ágreiningur milli stjórnarflokkanna í málinu. Það eru auðvitað tíðindi í sjálfu sér.

Einnig er athyglisvert að hér eru mjög misvísandi upplýsingar á ferðinni vegna þess að hæstv. forsrh. segir að um sé að ræða ekki eingöngu Landssímann heldur hugsanlega ríkisbankana líka. Hins vegar kemur fram í meirihlutaáliti efh.- og viðskn. að eingöngu sé um Landssímann að ræða. Hér þarf eitthvað að upplýsa þannig að allur vafi hverfi úr málinu.

Herra forseti. Ég vil aðeins rifja það upp að annar stjórnarflokkurinn hefur haft mjög ákveðna afstöðu í þessu máli og vil því vitna í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ég hef enn ekki séð rök fyrir öðru en því að ríkið eigi áfram netið og leyfi fyrirtækjum að keppa þar og veita landsmönnum öllum sem besta þjónustu rétt eins og á þjóðvegum landsmanna. Þannig tryggjum við jafnan aðgang allra landsmanna að fjarskiptum. Þannig tryggjum við áframhaldandi eðlilega þróun á sviði fjarskipta og þannig komum við í veg fyrir að hér á landi skapist Microsoft-ástand í fjarskiptum.``

Herra forseti. Þessi orð eru í tíma töluð.