Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:15:51 (3028)

2000-12-08 12:15:51# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er holur hljómur í orðum hv. formanns fjárln. þegar hann talar um sameiginlegan vilja stjórnar og stjórnarandstöðu í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. nýjustu brtt. við fjárlög ársins 2001. Það er vitað, maður finnur það í hverju orði og hverri ræðu, að vilji stjórnarflokkanna til samstarfs er enginn. Allar tillögur sem minni hlutinn leggur fram í þessari umræðu eru felldar, allar tillögur sem minni hlutinn kom með við 2. umr. voru felldar. Það er því harla erfitt, herra forseti, fyrir nýgræðing í þingstörfum að forðast að fá óbragð í munninn við fjárlagaumræðuna á hv. Alþingi. Á þessum pappírum frá hv. formanni fjárln., í brtt. nefndarinnar sér maður hrossakaup stjórnarflokkanna hrópa á sig í hverri línu.

Þess vegna lýsi ég því yfir, herra forseti, að það er holur hljómur í orðum hv. formanns fjárln. þegar hann talar um sameiginlegan vilja og þakkar hann. Spurning mín til hv. formanns lýtur að brtt. á þskj. 457 sem hann gerði grein fyrir í ræðu. Ég er að tala um tölulið 53, breytingu við fjárlagalið 14-190, Ýmis verkefni. Hv. formanni láðist að geta ástæðu hækkunarinnar á þessum fjárlagalið, þ.e. um 1 millj. kr. til ýmissa verkefna. Ég vil fá faglega skýringu hv. fjárln. á þessari tillögu. Hver er ástæða hækkunarinnar um 1 millj. á þessum lið?