Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 12:23:58 (3033)

2000-12-08 12:23:58# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, sjútvrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[12:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vesturl. að hæstv. samgrh. hafði hugsað sér að gera þinginu grein fyrir tillögum um niðurskurð í vegáætlun, þ.e. þær 800 millj. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Það er stundum þannig að kóngur vill sigla en byr verður að ráða. Málin hafa einfaldlega þróast þannig, m.a. vegna þess að skipulagsáætlanir hafa ekki legið fyrir, umhverfismat á einstökum framkvæmdum ekki verið tilbúið og hönnunartími einstakra framkvæmda verið lengri en ætlað var, að tillögur um þetta efni liggja ekki enn þá fyrir. Breytingar við vegáætlun munu að sjálfsögðu verða lagðar fram og afgreiddar hér á Alþingi síðar á þinginu.

Ég held hins vegar að þetta eigi ekki að torvelda Alþingi að halda áfram störfum sínum við að afgreiða fjárlög. Heildarupphæðin liggur klár fyrir sem og tilgangur þess að fresta framkvæmdunum. Niðurstöðurnar liggja af þeim sökum ekki fyrir um einstakar framkvæmdir og ég held að það sé ekki til neins gagns að flýta hér hálfunnum eða hálfköruðum tillögum um þetta sem ekki hefur unnist tími til fyrir ráðherra að taka afstöðu til.