Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:31:36 (3034)

2000-12-08 13:31:36# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJóh (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Sigríður Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þegar þetta frv. var lagt á borð okkar á haustdögum á líkti ég því við spennandi reifara og kallaði það dularfulla fjárlagafrv. vegna þess að gert var ráð fyrir svo mörgum óljósum fjárveitingum. Meðal annars átti að hafa einhverjar óskaplegar tekjur af sölu ríkiseigna sem engin nánari grein var gerð fyrir í fyrstu útgáfu frv. Það hefur nú verið að smáskýrast. Sömuleiðis var gert ráð fyrir að 800 millj. væru skornar niður eða frestað af útgjöldum til vegamála og ekki gefin nein vísbending um hvar ætti að skera.

Þingmenn höfðu setið hér á vordögum sveittir við að skipta vegafé og skipta niður í kjördæmi sín og unnið þetta af mikilli nákvæmni. Nú kom þeim allt í einu ekkert við hvað ætti að skera niður og hvað ekki. Að vísu gaf hæstv. samgrh. fyrirheit um að hann ætlaði að skýra þetta við 2. umr. um fjárlagafrv. en ekkert varð úr því og enn hefur þessum reifara sem sagt ekki verið lokað.

Ég verð að segja að þetta er eins og að lesa bók og allt í einu uppgötvar maður að endinn vantar. Það er einhver óþægilegasta tilfinning sem ég get hugsað mér og ég vil helst ekki fá svoleiðis trakteringar á hv. Alþingi.