Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:38:53 (3037)

2000-12-08 13:38:53# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Kallað hefur verið eftir þeim upplýsingum sem boðaðar eru af hálfu ríkisstjórnarinnar um áform í vegamálum og tilfærslur eða niðurskurð í því sambandi. Ljóst er, herra forseti, að eftir að starfandi samgrh. hefur tjáð sig nú í því máli er komin upp alveg ný staða í málinu, ný staða sem kallar á það við skoðum nokkuð framhald þess að því er varðar þá umræðu sem fram fer um fjárlögin.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að ástæða þess að við fengjum ekkert að vita núna áður en fjárlögunum væri lokað og þau afgreidd og fengjum enga vitneskju um stöðu þessara mála eða áformin í niðurskurði fyrr en eftir áramótin væri sú að ýmislegt vantaði upp á hönnunarvinnu, umhverfismat og skipulagsmál. Mér finnst alveg nauðsynlegt, herra forseti, að samgn. komi saman og fari yfir þá stöðu. Hvar er það sem verk eru vanbúin til að hægt sé að skýra þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur boðað?

Það hefur oft borið á því að hæstv. samgrh. hafi ýjað að Reykjavík, að vegaframkvæmdir þar séu vanbúnar til að fara í útboð eða framkvæmdir. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að upplýst sé hvað þetta er.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur verið að þetta sé fyrst og fremst Reykjanesbrautin í Hafnarfirði sem er vanbúin í skipulagsmálum? Mér er sagt að það sé ekki síst hún sem standi á í þessu sambandi. Það er því alveg nauðsynlegt að fá botn í þetta mál, á hverju stendur í þessu efni.

Herra forseti. Ég tel að það sé algjört lágmark að samgn. komi saman og fari yfir stöðu þessara framkvæmda sem menn hafa verið með á borðum eða legið í loftinu að yrðu fyrir einhvers konar niðurskurði eða tilfærslum í þessu efni.

Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki væri ráð að samgn. kæmi saman og væri æskilegt að vita hvort formaður samgn. væri hér í húsinu til að taka þátt í umræðunni og hvort hann geti ekki tekið undir þessa ósk sem ég tel að séu eðlileg vinnubrögð í framhaldinu, að samgn. fjalli um málið og fari yfir stöðuna, hvar á vegi þessar framkvæmdir eru staddar í hönnunar- og skipulagsvinnunni og umhverfismatinu þannig að við fáum eðlilega yfirsýn yfir málið og getum metið það hér hvort rétt og eðlilegt sé að fallast á að bíða með að fá niðurstöðu í málið þar til eftir áramót.