Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 15:21:04 (3050)

2000-12-08 15:21:04# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ósköp vel að hv. þm. Jón Bjarnason og vinstri grænir séu andvígir sölu á ríkisjörðum. Síðasti ríkiskapítalistinn hlýtur að vera það í hjarta sínu. Það er skoðun hans og flokks hans og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. En við hinir skynjum að mikilvægt er að einstaklingarnir eigi jarðir sínar og beri ábyrgð á þeim. Ég hygg að það sé svo með margar ríkisjarðir sem eru nú í eyði, í eigu skógræktar eða ríkisins, að þær eru án hirðis og án umhirðu margar hverjar og þess vegna er mjög mikilvægt að fara yfir hvernig með þær jarðir verður farið og stefna mótuð um hvernig þær verða seldar í framtíðinni eða hvort þær verða seldar.

Hvað snertir þær jarðir sem hér er beðið um heimild til að selja, þá hygg ég að farið verði vandlega yfir það í ráðuneytinu, að samstaða sé bæði ráðuneytis og viðkomandi sveitarstjórna og þess vegna jarðanefnda um að svo skuli gert. En ég fullvissa hv. þm. um að þó að heimild fáist í fjárlögum fyrir sölu þessara jarða verður enn og aftur farið yfir það hvort selja skuli og hvaða þýðingu þær hafa. Það verður allt skoðað faglega í ráðuneytinu.