Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:12:02 (3053)

2000-12-08 16:12:02# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ber alltaf upp á sama daginn í stjórnmálum og hefur svo sannarlega mikið vatn runnið til sjávar síðan ég kom blautur á bak við eyrun í framboð með hv. 18. þm. Reykv. á Austurlandi og hann kallaði mig í þingræðu pakkhúsmann að austan sem hefði skolað inn á Alþingi, en nú er hann farinn að taka meira mark á mér en sjálfum meistara sínum sem þá var, Davíð Oddssyni. (SvH: Var það ég sem sagði þetta? ) Já, en hins vegar þykir mér hólið gott og ég þakka fyrir það.

En hv. þm. beindi til mín tveimur spurningum. Sú fyrri var: Hversu mikill væri tekjuafgangurinn ef enginn viðskiptahalli væri? Ég mun reyna að nálgast þetta eins og hægt er, þ.e. tekjuafgangurinn er 33,9 milljarðar, af því er 15,5 milljarðar sala eigna, þá eru um 17 milljarðar eftir. Við getum nálgast það með því að telja tekjuaukninguna á virðisaukaskatti sem er 5 milljarðar, þá eru um 12 milljarðar eftir og ljóst er að ríkissjóður væri réttum megin þótt enginn viðskiptahalli væri. En að sjálfsögðu yrði afgangurinn verulega miklu minni og við höfum ekki deilt neitt um það.

Hin spurningin var: Hvar kemur aðhaldið fram? Ég mun, af því farið er að blikka á mig, svara því í seinna andsvari mínu.