Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 16:14:14 (3054)

2000-12-08 16:14:14# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki tekið gilt að draga sölu eigna upp á 15 milljarða frá þessum 34,9 milljörðum vegna þess að það kann að hafa verið eytt af þeim froðukúf sem af viðskiptahallanum stafar innan fjárlaganna þannig að þetta er ekki svar sem getur gilt í þessu sambandi. Þetta stefnir í 70 milljarða. Hér er mest um að tefla gífurlegum vöruinnflutningi á neysluvörum. Og hver er tollurinn á neysluvörunum og eftir að þær koma í landið, virðisaukinn af þeim? Mér hefur verið sagt, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti, að reikna megi með því að fast að helmingi af viðskiptahalla megi reikna sem tekjur vegna innflutningsgjalda og framhaldstekna sem ríkið hefur af innflutningnum. (Gripið fram í: 24% til 25%?) 25%. Sem er um fjórðungur af 70 milljörðum. Þá nálgast þetta 20 milljarða, 17, 18 milljarða. Við erum ekki svo nauir með þetta, við Vestfirðingar. Við látum nú fjölina fljóta ef því er að skipta.

En þá eigum við sem sé von á því að fá aukalega upp undir 20 milljarða til þess að eyða og spenna næsta ár vegna þess ógnarlega viðskiptahalla sem við stefnum í.